Ingvar, Sam Shepherd og Iggy Pop

29.07.2012 - 13:57
Mynd með færslu
Ný uppfærsla á leikritinu Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen verður frumsýnd á Salzburgarhátíðinni í Austurríki annað kvöld. Það er leikstjórinn Irina Brook sem setur sýningu upp en með aðalhlutverkið fer Ingvar E. Sigurðsson.

Salzburgarhátíðin er ein af stærstu listahátíðum Evrópu en hún hófst 20. júlí og stendur fram til 2. september. Hún er að stærstum hluta tónlistarhátíð en einnig er leiklistinni gerð góð skil.

Ingvar segir sýning Irinu reyna talsvert á líkamlega en hún einkennist af miklum söng og dansi þar sem leikin er tónlist Edwards Griegs í bland við aðra og bæði tónlistarmenn, dansarar og leikarar taka þátt í sýningunni.

„Það er Grieg þarna og síðan meira að segja lag eftir mig, og lag eftir Sam Shepherd sem skrifar tólf texta þarna líka. Og tvö lög eftir Iggy Pop, samin sérstaklega fyrir þessa sýningu,“ segir Ingvar sem hefur verið úti í Austurríki frá 3. júlí við æfingar, en þar áður fór hann tvisvar til Bretlands og hitti samstarfshópinn, til að taka þátt í spunaæfingum.

Ingvar er alls ekki ókunnur verkinu en hann hefur tekið þátt í tveimur uppsetningum á Pétri Gaut hérlendis og leikið ýmis hlutverk þar sem og Pétur Gaut sjálfan. Í þessari uppsetningu reynir mikið á sönghæfileika Ingvars.

„Í rauninni er stefnan tekin þannig að Pétur Gautur sem er mikill draumóramaður, hann tekur stefnuna á Rokkheiminn þannig að hann er í rauninni rokkstjarna. Ég er bara inni á sviði eiginlega allan tímann og þetta er svaka „show“. Þetta er magnað. Og þetta er allt að taka á sig alveg stórkostlega mynd, þetta er alveg frábært.“

Generalprufan verður í kvöld og frumsýningin, eins og áður sagði, á mánudagskvöld. Leikritið verður svo sýnt nánast daglega til 18. ágúst.

Irina Brook er dóttir hins þekkta breska leikstjóra Peter Brook en það var einmitt hann sem fann Ingvar fyrir hlutverkið. Brook var staddur á Íslandi og komst yfir upptöku af Woyzec frá Vesturporti og sýndi dóttur sinni.