Íhugaði sjálfsvíg strax í barnaskóla

03.02.2017 - 13:48
„Ég held að ég hafi ætlað að hengja mig upphaflega. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta fór allt saman, en ég man hvernig mér leið,“ segir Einar Björnsson, einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem glímt hafa við geðrænan vanda. Hann var lagður í einelti frá sex ára aldri sem hann telur að hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu sína alla tíð upp frá því.

Í þáttaröðinni Paradísarheimt, sem hefst á RÚV á sunnudagskvöld, ræðir Jón Ársæll Þórðarson við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða. Hér fyrir ofan má sjá brot úr fyrsta þættinum.

Geðdeildin var annað heimili Einars um árabil og í þeirri ferð fór hann til helvítis, eins og hann orðar það sjálfur, en komst aftur heim til heilbrigðis. „Svörtustu tímarnir, þá er algjört vonleysi. Orkuleysi, bjargarleysi, maður getur ekkert gert til að breyta ástandinu. Þannig upplifir maður hlutina,“ segir Einar. „Manni finnst maður ekki geta gert neitt almennilega eða sé ekki hæfur sem manneskja. Ég upplifði það.“

Einar var ósköp eðlilegt barn en kvíðinn, sem átti eftir að setja mark sitt á líf hans, var aldrei langt undan. Í grunnskóla þjáðist hann af vanlíðan og íhugaði að taka eigið líf. „Ég var lagður í einelti frá því að ég byrja hér í skóla, frá því að ég var sex ára gamall. Ég held að það hafi haft alveg gífurleg áhrif á mig seinna,“ segir Einar, sem íhugaði að taka eigið líf sem barn. „Ég held að ég hafi ætlað að hengja mig upphaflega. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta fór allt saman, en ég man hvernig mér leið.“

Í fyrsta þættinum af Paradísarheimt skoðar Jón Ársæll líf fólks sem gengið hefur í gegnum ótrúlegar raunir vegna geðveiki sinnar en einnig unnið mikla sigra í baráttunni við sjúkdóminn. Þátturinn er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld kl. 20.25.

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Paradísarheimt