ÍBV í úrslit eftir vítaspyrnukeppni

13.08.2017 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Mikil dramatík var í Vestmannaeyjum þegar ÍBV og Grindavík mættust í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í dag. Þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá viðureignina en þar var markvörður ÍBV, Adelaide Anne Gay, hetja liðsins og að sjálfsögðu var það Cloé Lacasse sem tryggði ÍBV sigurinn.

Það var sannkölluð Þjóðhátíðar stemmning í Vestmannaeyjum en karlalið ÍBV varð Borgunarbikarmeistari í gær og nú fær kvennaliðið tækifæri til að gera það sama þegar þær mæta annað hvort Val eða Stjörnunni á Laugardalsvelli þann 8. september. 

Kvennalið ÍBV, eins og karlalið félagsins, er að fara í sinn annan bikarúrslitaleik á tveimur árum en liðið tapaði 3-1 fyrir Breiðablik í fyrra.

Rólegar fyrstu mínútur

Leikurinn í Eyjum byrjaði rólega og ljóst var að hvorugt liðið vildi taka óþarfa sénsa í byrjun. ÍBV sótti þó aðeins meira en tókst ekki að valda Viviane Holzel Domingues í marki Grindavíkur neinum teljandi vandræðum.

Grindavík ætlaði greinilega að sitja til baka og beita skyndisóknum en það var sama leikplan og skilaði liðinu stigi gegn Stjörnunni á dögunum.

Stigu á bensíngjöfina

Síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik settu ÍBV hins vegar allt á fullt og uppskáru á endanum mark eftir mikinn darraðardans í vítateig Grindavíkur. Það var auðvitað Cloé Lacasse sem skoraði en Sísí (Sigríður Lára Garðarsdóttir) hafði átt skalla í slánna nokkrum sekúndum áður.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri. Róbert Jóhann Haraldsson gerði tvöfalda skiptingu á 54. mínútu sem átti svo sannarlega eftir að skila sér. Þá komu Elena Brynjarsdóttir og Lauren Brennan inn á fyrir Helgu Guðrúnu Kristinsdóttur og Önnu Þórunni Guðmundsdóttur. 

Það virtist sem Grindavík ætlaði ekki að takast að jafna leikinn en þeim gekk illa að skapa sér færi. Á 82. mínútu þurfi fyrirliði Grindavíkur, Sara Hrund Helgadóttir, að fara útaf en hún hafði fengið knöttinn beint í andlitið nokkrum mínútum áður og steinlá eftir það. 

Stórkostlegt jöfnunarmark

Það var svo á lokamínútu uppbótartíma sem Grindavík jafnaði metin en það gerði Elena Brynjarsdóttir með frábæru marki eftir hafa stungið sér inn á milli fjögurra varnarmanna ÍBV og ljóst að leikurinn var á leiðinni í framlengingu.

Fyrir utan rauða spjaldið sem Dröfn Einarsdóttir, leikmaður Grindavíkur, fékk þá gerðist fátt markvert í framlengingunni. Það var því farið í vítaspyrnukeppni en þar reyndust ÍBV töluvert sterkari en Adelaide Anne Gay varði tvær spyrnur og svo var það Cloé Lacasse sem tryggði liðinu sæti í úrslitaleiknum 8. september. 

Vítaspyrnukeppnin
0-0 Adelaide Anne Gay ver frá Lauren Brennan
1-0 Sóley Guðmundsdóttir skorar fyrir ÍBV
1-1 Rilany Aguiar Da Silva skorar fyrir Grindavík
2-1 Sigríður Lára Garðarsdóttir skorar fyrir ÍBV
2-1 Adelaide Anne Gay ver frá Elenu Brynjarsdóttur
3-1 Júlíanna Sveinsdóttir skorar fyrir ÍBV
3-2 Viviane Holzel Domingues skorar fyrir Grindavík
4-2 Cloé Lacasse skorar fyrir ÍBV

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður