Í fangelsi fyrir að hóta Hillary Clinton

13.09.2017 - 23:44
FILE - In this Thursday, Dec. 17, 2015, file photo, Martin Shkreli
 Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  FR61802 AP
Martin Shkreli hefur verið fangelsaður vegna hótana í garð Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðanda og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Sjálfur segir hann að orð sín hafi verið sett fram í gríni. Hann bauð hverjum þeim fimm þúsund dollara sem gæti rifið hár af höfði Clinton. Shkreli hefur verið kallaður hataðasti maður Bandaríkjanna fyrir að 55-falda verðið á HIV-lyfjum eftir að hann keypti fyrirtækið sem framleiddi lyfið.

Shkreli var sakfelldur í síðasta mánuði fyrir fjármálabrot en var á reynslulausn meðan hann beið þess að refsing hans yrði ákveðin. Hann var ákærður fyrir umboðssvik þegar hann stýrði tveimur fjárfestingarsjóðum. Meðan á reynslulausninni stóð birti ummæli sín um Clinton á netinu. 

Þetta var grín, sagði Shkreli og skrifaði dómaranum bréf til að biðjast afsökunar á slæmri dómgreind sinni. Dómarinn tók ekki mark á bréfinu og heldur ekki varnarræðu verjandans. Shkreli verður því bak við lás og slá fram í janúar, þegar refsing hans verður ákveðin.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV