Hvetja til menntunar vegna skorts á fagfólki

09.08.2017 - 16:00
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð þjónusta stofnanir
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Nær engar umsóknir berast um stöður fagmenntaðra hjá heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Því hefur verið hrint af stað átaki til að mennta íbúa í heimabyggð. Hjúkrunarstjóri segir fjarnám vera mikilvægan kost fyrir íbúa á landsbyggðinni og að átakið hafi strax borið árangur. 

Gengið illa að ráða faglært fólk

Á Patreksfirði hefur gengið illa að ráða fagfólk til starfa hjá heilbrigðisstofnuninni. „Við höfum auglýst mikið bæði eftir hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, sjúkraflutningamönnum, lífendafræðingi og það má segja að við höfum ekki fengið nein svör,“ segir Anna Árdís Helgadóttir, hjúkrunarstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði. Því ákvað hún að leita sér nær og finna leið til að virkja mannauðinn í heimabyggð.

Vilja styðja við fólk í heimabyggð

Fyrr í sumar var því haldin kynning fyrir íbúa á Patreksfirði og nágrenni í samstarfi við Fræðslumiðstöðina á Vestfjörðum, Háskólann á Akureyri, sjúkraflutningamenn og Menntaskólann á Ísafirði, sem býður upp á sjúkraliðanám. Anna Árdís segir mikilvægt að veita fólki stuðning sem telur sig ef til vill hafa misst færnina til að læra eftir langa fjarveru frá skólabekk.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RÚV
Anna Árdís Helgadóttir, hjúkrunarstjóri á HVEST Patreksfirði

Fjárnám sífellt vinsælla

Fjarnám var kynnt fyrir íbúum en vinsældir þess færast sífellt í aukanna. Í ár hefur umsóknum um nám fjölgað, bæði hjá Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri þar sem er hægt að stunda allt nám í fjarnámi. Anna Árdís segir fjarnámið vera mikilvægan kost fyrir íbúa á landsbyggðinni.  „Það kostar mikið að flytja og það er mikið rask fyrir fjölskyldufólk við að flytja til að menntasig og þá er líka meiri hætta á því að það komi ekki aftur.“

Anna Árdís segir að nú þegar hafi átakið borið árangur þar sem þrír íbúar hefja sjúkraliðanám í haust og verða studdir til námsins af heilbrigðisstofnuninni.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV