Hvernig gæti Reykjavík litið út ef fleiri myndu hjóla, ganga eða taka strætó? Þessari spurningu reyndu fulltrúar samtaka um bíllausan lífstíl og íbúar við Melhaga að svara í dag.

Tilraunin í dag var í raun nákvæm endurgerð myndaraðar frá borginni Munster í Þýskalandi. Gatan var tæmd af bílum og að því búnu komu 70 manns á 60 bílum, en að meðaltali er 1,2 farþegar í hverjum bíl.

Tekin var mynd af götunni með öllum bílunum áður en þeir voru keyrðir á brott. Síðan kom Metanvagn, sömu 70 einstaklingarnir stóðu fyrir framan hann, en þau hefðu öll komist í vagninn.

Að lokum var tekin mynd af sama hópnum og reiðhjólunum þeirra.

Sigrún Helga Lund, samtökum um bíllausan lífsstíl sagði að markmiðið væri að sýna fram á að borgarbúar hafa val um hvernig borgin lítur út.