Hver vill halda Ólympíuleika?

23.09.2016 - 09:57
epa05506281 Rio Mayor Eduardo Paes (L), IOC President Thomas Bach (C) and Tokyo governor Yuriko Koike hand over the Olympic flag during the Closing Ceremony of the Rio 2016 Olympic Games at the Maracana Stadium in Rio de Janeiro, Brazil, 21 August 2016.
Thomas Bach forseti IOC réttir Ólympíufánann yfir til Yuriko Koike ríkisstjóra í Tokyo, en Tokyo heldur Ólympíuleikana 2024.  Mynd:  -  EPA
Eftir að Virginia Raggi borgarstjóri Rómarborgar tilkynnti fyrr í vikunni að borgaryfirvöld í ítölsku höfuðborginni ætluðu ekki að standa að baki umsókn ítölsku Ólympíunefndarinnar um að halda sumarólympíuleikana árið 2024 er ljóst að valið stendur á milli Parísar, Los Angeles og Búdapest um að halda leikana að átta árum liðnum.

Enn á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en nefndarmenn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, IOC koma sér saman um það hvar leikarnir verða haldnir, en það verður ákveðið 13. september á næsta ári á sérstökum fundi IOC í Lima, höfuðborg Perú.

Fjárhagsleg skuldbinding sem ekki er hægt að réttlæta

En af hverju ættu borgir að leggja í að halda Ólympíuleika í dag, miðað við þær kröfur og staðla sem IOC setur? Kostnaðurinn við að halda Ólympíuleika er gígantískur. Ástæðan fyrir því að Róm hefur dregið umsókn sína til baka er sú sama og ástæðan sem borgaryfirvöld Oslóar gáfu upp þegar Osló dró umsókn sína til baka um að halda vetrarólympíuleikana 2022 - það er ekki hægt að réttlæta svona mikla fjárhagslega skuldbindingu.

Enn á eftir að koma í ljós hversu háar fjárhæðir það kostaði Brasilíubúa að halda Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra í Ríó de Janeiro í sumar. Það er þó talið að 11,6 milljarðar Bandaríkjadala hafi verið teknir af skattfé til að fjármagna leikana. Sú upphæð er þó aðeins hluti af heildarkostnaðnum við að halda leikana í Ríó. Sé þetta borið saman við leikana í London fyrir fjórum kostuðu þeir 14,6 milljarða dollara. Lundúnaleikarnir voru reknir á núlli en Peking sem hélt sumarleikana 2008 og Vancouver sem hélt vetrarleikana 2010 tókst að skila hagnaði.

Ólympíuleikarnir í Aþenu 2004 skildu hins vegar eftir sig sviðna jörð, því tap Aþenuborgar á að halda leikana nam um 14,5 milljörðum dollara. Búist er við því að leikarnir í Ríó hafi ekki staðið undir sér, og sömu sögu er að segja um vetrarleikana í Sochi í Rússlandi 2014. Engar tölur hafa þó enn komið frá Rússlandi, nema vitað er að kostnaðurinn við leikana var um 51 milljaður dollara, sem er það lang mesta sem einir Ólympíuleikar hafa kostað.

Fáar borgir treysta sér í baráttuna

Þegar á hólminn er komið virðast fáar borgir treysta sér í dag til að leggja svona mikið undir, til að halda Ólympíuleika. Það eru helst allra stærstu borgir hins vestræna heims sem ráða við að halda Ólympíuleika án þess að allt fari í kalda kol á eftir - miðað við núverandi kröfur. Talið var fullvíst að Osló fengi vetrarleikana 2022, en eftir að Osló dró umsókn sína til baka stóðu aðeins Peking í Kína eftir og Almaty í Kasakstan. Peking hafði betur, en fróðlegt verður að sjá hvernig framkvæmd leikanna verður þar - enda Pekingborg seint þekkt sem einhver vetrarparadís. Það gæti því verið afar langt á milli keppnisstaða og framkvæmdir borgaryfirvalda til að halda leikana verða án efa kostnaðarsamar.

Árið 2005 þegar London vann kosningu um að halda sumarólympíuleikana 2012 voru fimm borgir í framboði og enn fleiri sem höfðu ráðgert að sækjast eftir leikunum. Þegar kosið var um leikana 2016 voru fjórar borgir í framboði og fyrir leikana 2020 þrjár borgir. Svo gæti vel farið að aðeins tvær borgir standi eftir í baráttunni um leikana 2024 þegar IOC greiðir atkvæði í september á næsta ári. París og Los Angeles verða alveg örugglega í baráttunni allan tímann, en Búdapest er talsvert meira spurningamerki.

2024 í Los Angeles og 2028 í París?

Bandaríski verðlaunablaðamaðurinn Alan Abrahamson, sem hefur síðustu ár verið Ólympíusérfræðingur hjá sjónvarpsstöðinni NBC skrifar pistil á bloggsíðu sína í gær þar sem hann veltir upp möguleikum. Abrahamson leggur til að IOC taki hugrakka ákvörðun og ákveði sem fyrst og tilkynni samtímis að sumarólympíuleikarnir 2024 verði í Los Angeles og París fái þá leikana fjórum árum síðar, 2028.

Þá sé búið að afgreiða keppnisborgir sumarólympíuleika 12 ár fram í tímann og um leið kaupi IOC sér tíma til að finna út úr því hvað hægt sé að gera til það meira aðlaðandi fyrir borgir heimsins að leggjast í það að sækjast eftir því að halda Ólympíuleika.

Hugmyndin er í það minnsta áhugaverð. Bandarísk borg hefur ekki haldið Ólympíuleika síðan 2002, þegar vetrarleikarnir voru haldnir í Salt Lake City - og sumarleikar hafa ekki verið í Bandaríkjunum síðan 1996 þegar Atlanta hélt leikana. Margir telja því að röðin sé komin að Bandaríkjunum núna. Nefndarmenn í bandarísku Ólympíunefndinni fóru í mikla fýlu þegar gengið var framhjá New York að halda sumarleikana 2012 og Chicago 2016 og nú komi ekkert annað til greina en að Los Angeles fái þá leikana 2024.

París er þó klárlega í stakk búin að halda Ólympíuleika og mikið hefur verið lagt í umsókn Parísarborgar fyrir leikana 2024. Abrahamson telur þó betra að Los Angeles fengi leikana 2024 og París þá leikana 2028.

Fordæmi fyrir því að velja tvo gestgjafa í einu

Fordæmi eru fyrir því að velja tvo gestgjafa á stórum íþróttamótum í einu, þó það hafi aldrei verið gert með Ólympíuleika. Það var til dæmis ákveðið í desember 2010 af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA að HM karla í knattspyrnu árið 2018 yrði í Rússlandi og HM 2022 í Katar. Þá var einnig ákveðið samtímis á sínum tíma að HM karla í handbolta yrði haldið árið 1993 í Svíþjóð og 1995 á Íslandi.

Þó hugmyndin sem Alan Abrahamson veltir upp sé áhugaverð, er óvíst að hún komi inn á borð IOC. Það stefnir þó allt í vanda fyrir Alþjóða ólympíunefndina á næstu árum að finna keppnisstaði fyrir Ólympíuleika, ef ekki verður farið vel ofan í saumana á núverandi fyrirkomulagi. Færri borgir en áður hafa allavega áhuga á að halda Ólympíuleika miðað við kostnaðinn sem þeim fylgir.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður