Hver fylking með sína leið til rannsóknar

06.09.2017 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Kjörnir fulltrúar í Reykjavík leggja til fjórar leiðir til að rannsaka skemmdir á Orkuveituhúsinu og hvar ábyrgðin á þeim liggur. Tvær tillögur um rannsókn voru lagðar fram á borgarstjórnarfundi í gær en vísað til borgarráðs. Hver og ein fylking í borgarstjórn hefur lagt til sína leið við rannsókn.

Tillögurnar tvær sem lagðar voru fram í borgarstjórn voru frá Framsókn og flugvallarvinum og Sjálfstæðisflokknum. 

Vilja yfirfara viðbrögð og aðgerðir

Í tillögu Framsóknar og flugvallarvina er lagt til að borgarráð samþykki að skipa sérstaka úttektarnefnd sem yfirfari viðbrögð og aðgerðir vegna skemmda á húsi Orkuveitunnar. Þar er lagt til að skoðað verði hvernig brugðist hafi verið við skemmdum á húsinu sem upp hafi komið frá byggingu þess fram í september 2015 þegar raki og mygla uppgötvaðist. Einnig hvort hagsmuna Orkuveitunnar og eigenda þess hafi verið gætt í hvívetna. Sérstök áhersla er lögð á að skoða viðbrögð við leka sem uppgötvaðist árin 2004 og 2009.

Vilja opinbera rannsókn

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu að borgarstjórn samþykkti að fram færi opinber rannsókn á því milljarða tjóni sem orðið hafi á húsi Orkuveitunnar. Þar eigi að leiða í ljós orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar. Athuga eigi hvernig staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvernig staðið hefur verið að viðhaldi á notkunartíma þess. Sjálfstæðismenn vilja meðal annars láta rannsaka hvernig pólitískar ákvarðanir voru teknar um byggingu hússins og stækkun þess á byggingartíma. 

Báðum tillögunum var vísað til borgarráðs til umfjöllunar að tillögu borgarstjóra. Þetta var gert samhljóða í umræðu um tillögu Framsóknar og flugvallarvina en Sjálfstæðismenn voru ósáttir við að sinni tillögu væri vísað til borgarráðs. Þeir sögðu að borgarstjórn væri ekkert að vanbúnaði að samþykkja slíka tillögu og lögðu á herslu á að rannsaka yrði málið í heild sinni.

Dómkvaddur matsmaður verði kallaður til

Borgarfulltrúar meirihlutans sögðu í bókun að það væri samstaða um að fyrsta skrefið væri að kalla til dómkvaddan matsmann. Meðal þess sem lagt væri til í tillögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina væru atriði sem dómkvaddur matsmaður færi yfir. Þess vegna þætti fulltrúum meirihlutans; Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata, eðlilegt að leyfa matsmanni að ljúka vinnu sinni áður tekin væri afstaða til þeirra atriða sem kveðið væri á um í tillögum minnihlutaflokkanna. Að auki myndi mat á lagalegri stöðu Orkuveitunnar byggja á niðurstöðu dómkvadda matsmannsins.

Vill skoða málamyndasamning

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, sem er utan flokka eftir að hafa sagt skilið við Framsóknarflokkinn, samþykkti að vísa báðum tillögunum til borgarráðs. Hún lagði þó áherslu á að við úrvinnslu á þeim yrði þeim vísað til gagngerrar úttektar hjá Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Þar yrði tekið sérstaklega á því hvort samningur um kaup lífeyrissjóða á Orkuveituhúsinu væri málamyndasamningur út frá ákvæði fasteignakaupalaga og hvort það hefði áhrif á ábyrgð á reikningsskilum Orkuveitunnar og skuldsetningarhlutfalli samstæðunnar.