Hús rýmd í Jacksonville í Flórída

11.09.2017 - 16:57
Umbrellas held by Janesse Brown, left, and her daughter Briana Johnson, 12, right, get torn apart by strong winds as Kyra Johnson, 8 watch, while they tried to visit Southbank Riverwalk in Jacksonville, Fla., Sunday, Sept. 10, 2017, as Hurricane Irma
Bálhvasst hefur verið í Jacksonville síðustu dægrin vegna hitabeltisóveðursins Irmu.  Mynd: AP  -  The Florida Times-Union
Íbúum á tveimur rýmingarsvæðum í borginni Jacksonville í Flórída hefur verið skipað að forða sér að heiman. Útlit er fyrir mikil flóð af völdum óveðurslægðarinnar Irmu auk þess sem háflóð verður á sama tíma og hún fer framhjá borginni.

Embætti sýslumanns í Jacksonville í norðvesturhluta Flórída tilkynnti um rýmingu á Facebooksíðu sinni í dag. Flóðahættan er mest við St. Johns ána, sem rennur gegnum borgina. Í tilkynningunni segir að flóð í borginni séu þegar í sögulegu hámarki og eigi eftir að hækka enn frekar, allt að 1,2 til 1,8 metra umfram það sem venjulegt er á háflóði. Útlit var fyrir að það næði hámarki um klukkan tvö síðdegis að staðartíma, það er klukkan sex í kvöld að okkar tíma. Því var beint til fólks sem ekki kemst að heiman í tæka tíð að flytja sig á efri hæðir í híbýlum sínum frekar en að leggja sig í hættu.

Um 880 þúsund manns búa í Jacksonville. Borgin er ekki á leið Irmu norður og vestur á bóginn, en eigi að síður fá borgarbúar rækilega að finna fyrir áhrifum hennar. Þegar Irma kom að landi í Flórída í gærmorgun var hún fjórða stigs fellibylur. Síðan þá hefur dregið úr styrknum, en eigi að síður er hún enn flokkuð sem kröftugur hitabeltisstormur. Óveðrið hefur þegar orðið að minnsta kosti fjórum að bana í Flórída og 33 til viðbótar áður en hún náði landi í Bandaríkjunum. Þá veldur það margs konar vandræðum, svo sem rafmagnsleysi. Um sex milljónir heimila í Flórída eru án rafmagns, það er meira en sex heimili af hverjum tíu í ríkinu.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV