Hundruð fermetra brunnu í skógareldum í Noregi

15.07.2017 - 18:17
Erlent · Evrópa · Noregur
Mynd með færslu
 Mynd: Alex Miroshnichenko  -  Wikimedia Commons
Kalla þurfti til þyrlu slökkviliðsins í Noregi í dag þegar ekki var útlit fyrir að slökkvilið í sveitarfélaginu Nedre Eiker réði við skæða skógarelda sem þar hafa logað. Nú þegar hefur hundraða fermetra svæði orðið eldinum að bráð. Hvassviðri hefur gert slökkviliðsmönnum erfitt fyrir, samkvæmt því er kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins, NRK. Hafa slökkviliðsmenn unnið hörðum höndum svo klukkutímum skiptir.

Eftir að þyrlan hafði gert atlögu að eldinum um klukkan sex að norskum tíma voru hins vegar aðeins minni eldar eftir og útlit er fyrir að ástandið sé viðráðanlegt. Enginn er talinn slasaður en grunur leikur á um að bruninn hafi átt upptök sín í varðeldi í skóginum.

Sjá frétt NRK hér.

Myndin með fréttinni er af brunavarnarþyrlu í Bandaríkjunum.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV