Hretið gæti spillt varpi smáfugla

10.05.2017 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Edda Björnsdóttir
Ef kólnar mikið næstu daga og snjór festir á jörðu geta smáfuglar, sem farnir eru að verpa, orðið illa úti. Fuglafræðingur segir lítið varp hafið á hálendinu.

Það hefur snjóað til fjalla í allan dag og víða er slydda á láglendi á norðan- og austanverðu landinu. Það spáir heldur svalara veðri á morgun og éljagangi fyrir norðan.

Kuldi og snjór geti spillt fyrir hjá smærri fuglum

Eftir hlýindin undanfarna daga og vikur er varp komið á fullt á láglendi. Mófuglar og smáfuglar liggja því á eggjum. Halldór Walter Stefánsson, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir slæmt hret vont fyrir þessa fugla. Of snemmt sé þó að segja til um hvað gerist. Það fari allt eftir því hvernig veðrið þróast næstu daga. Ef kólnar mikið og snjór festir á jörðu geti það spillt fyrir. Hann hefur þó engar áhyggjur af gæsavarpi.

Lítið varp á hálendinu enn sem komið er

Halldór segir fugl lítið vera farinn að verpa á hálendinu. Hann hafi farið inn á Vesturöræfi á mánudaginn og séð að gæsir þar séu varla byrjaðar að verpa og það sama eigi við um álftir og mófugla. „Þannig að fuglar á hálendinu sleppa kannski við þetta. Það er hinsvegar allt fullt af fugli þar og allir tilbúnir í varp. En fuglinn færir sig neðar ef þrengir að honum,“ segir Halldór.