Hrakfarir ástralskra hjóna í áströlskum miðlum

11.01.2017 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áströlsku hjónin sem týndust á Langjökli í síðustu viku hafa ráðið sér lögmann til að gæta hagsmuna þeirra gagnvart fyrirtækinu Mountaineers of Iceland, sem fór með þau í vélsleðaferð á jökulinn. Þau áskilja sér rétt til að höfða mál á hendur fyrirtækinu. Fjallað hefur verið um mál hjónanna í áströlskum fjölmiðlum.

Hjónin David og Gail Wilson týndust í sjö tíma í vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins Mountaineers of Iceland við Langjökul á fimmtudaginn í síðustu viku. Hjónin hafa gagnrýnt fyrirtækið og meðal annars sagt að aldrei hefði átt að fara í ferðina í ljósi þess að búið var að gefa út stormviðvörun. Þá var enginn leiðsögumaður aftast í hópnum sem fólkið var í, heldur bara fremst, og því tók enginn eftir því þegar hjónin urðu viðskila við hópinn. Einn eigenda Mountaineers of Iceland hefur á móti gagnrýnt hjónin og sagði í fréttum að fyrirtækið hafi ekki gert nein mistök. Öll verkferli verði þó skoðuð.

Árni Helgason, lögmaður hjónanna, hefur sent fyrirtækinu erindi og óskað eftir afstöðu þess til greiðslu bóta vegna málsins. Árni segir að þar undir myndi falla bæði bætur vegna beins tjóns hjónanna en einnig miskabætur vegna þeirrar erfiðu reynslu sem hjónin urðu fyrir. Vilji fyrirtækið ekki greiða hjónunum bætur áskilji þau sér rétt til þess að höfða bótamál á hendur fyrirtækinu.

Fjallað var um mál hjónanna í aðalkvöldfréttatíma áströlsku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 9 í gær og á vefsíðu stöðvarinnar. Channel 9 er önnur tveggja stærstu sjónvarpsstöðvanna í Ástralíu.

Þá var einnig fjallað um málið á fréttasíðunni news.com.au í morgun.