Hótel fyrir tæpa tvo milljarða

02.03.2016 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
DCIM\100MEDIA\DJI_0016.JPG
 Mynd: Íslandshótel
DCIM\100MEDIA\DJI_0038.JPG
 Mynd: Íslandshótel
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandshótel
„Þetta má ekki klikka, hótelið er mikið bókað frá fyrsta degi. Það er mikið sótt á þetta svæði“ segir Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótels. Áformað er að opna Hótel Jökulsárlón á Hnappavöllum í Öræfum fyrsta júní. Byrjað var að byggja fjögurra stjörnu hótel í apríl í fyrra, það er á sjötta þúsund fermetrar og kostar tæpa 2 milljarða.
DCIM\100MEDIA\DJI_0016.JPG
 Mynd: Íslandshótel

Nýja hótelið á Hnappavöllum er hið sextánda í hótelkeðju Íslandshótels. Saga þess hófst fyrir 24 árum, þegar Ólafur Torfason stofnaði Hótel Reykjavík með 30 herbergjum á Rauðárárstíg. Hótel Jökulsárlón verður þrettánda Foss-hótelið undir þessum hatti, en þau eru víða um land. Að auki eru þrjú hótel í Reykjavík. Nýja hótelið verður fjögurra stjörnu og er þegar mikið bókað, frá fyrsta degi. En hvers vegna gengur svo vel að bóka? „Það er mikil ásókn í þetta svæði, við þekkjum það vel. Við erum með hótel rétt fyrir utan Höfn og annað á Núpum og rákum hótelið í Freysnesi um tíma. Það er náttúrulega fyrst og fremst Jökulsárlónið sem er að draga þarna mikið að“, segir Davíð Torfi.

Byggt úr límtréseiningum

Nýja hótelið er fimm samtengd hús á tveimur hæðum, timburhús á steyptum grunni. Byggt er  úr límtréseiningum frá austurrísku fyrirtæki, KLH Massivholz. Slík hús hafa ekki áður verið reist hér á landi, Davíð Torfi segir að verkið gangi vel og byggingartími sé allt að þriðjungi styttri. „Þetta er mjög traust og við höfum nú heldur betur fengið að finna fyrir því í vetur í veðurofsa, í 30 og 40 metra hviðum þarna og það hefur varla fundist nokkur skapaður hlutur. Þannig að þetta lítur allt mjög vel út“.

„Mikil fjárfesting“

Davíð Torfi segir að hótelið verði fjögurra stjörnu. Það sé ljóst að næg eftirspurn sé eftir dýrari gistingu á þessum slóðum. Hann segir að hótelið kosti á bilinu 1,5 til 1,8 milljarða, með öllu saman. „Þetta á að verða mjög flott“. Bjarni Snæbjörnsson arkitekt teiknar húsið, Bygginga og verkefnastjórn er í höndum BEKA ehf. Við bygginguna starfa nú um 50 manns. Hótel Jökulsárlón er sextánda hótelið undir hatti Íslandshótels. „Við stefnum á að þetta verði orðin 20 hótel á næstu 2-4 árum“, segir Davíð Torfi Ólafsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
DCIM\100MEDIA\DJI_0038.JPG
 Mynd: Íslandshótel
Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV