Holóttur og erfiður vegur um Dynjandisheiði

17.07.2017 - 09:56
Ferðamenn á leið um Dynjandisheiði segja veginn þann versta sem þeir hafa ekið á ferð sinni um landið. Ekki hefur verið hægt að hefla veginn vegna rigningatíðar. Vegurinn um Dynjandisheiði var lagður árið 1959 og yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni segir hann ekki bera þá miklu umferð sem um hann fer enda líklega aldrei verið meiri en nú. Ferðamenn fara um heiðina svokallaðan Vestfjarðahring sem og til að berja fossinn Dynjanda augum.

Erfiðasti vegur ferðarinnar

Nokkrir ferðamenn urðu á vegi fréttastofu á leið um heiðina. Hvernig finnst þér vegirnir hérna? „Mér finnst þeir stórkostlegir. Erfiðir yfirferðar en vel færir þessum bíl,“ segir Eric Cooreman, ferðamaður frá Belgíu sem ók um á smájeppa.  Voru einhverjir vegir erfiðari en aðrir? „Þessi vegur var sá erfiðasti, sá sem ég var að koma af.“

Katelyn, ferðamaður frá Bandaríkjunum ók um á litlum smábíl: „Þessi vegur var tvímælalaust einn sá erfiðasti. Sérstaklega því að við vorum að keyra í þoku. Grjótið er erfiðast. Holurnar eru auðveldari, erfiðara að sjá steinana.“

Djúpar holur á löngum köflum, grjót og brattar brúnir við brýr. Ómar Ragnarsson, sem lauk við hringferð um landið á léttbifhjóli sagði heiðina erfiðasta kafla leiðarinnar: „Ég var tvo tíma og tuttugu mínútur að fara 70 kílómetra og það er svakalegt að svona vegur skuli vera til í þessu ástandi á okkar tímum.“

Ótryggt fjármagn fyrir nýjum vegi

Kynnt hafa verið drög að matsáætlun fyrir endurbótum á veginum um Dynjandisheiði en fjármagn til framkvæmdanna er ekki tryggt. Þangað til sinnir Vegagerðin á Patreksfirði og á Ísafirði viðhaldi á tæplega sextugum veginum. „Við höfum hefilinn og það er okkar fyrsta ráð í þessu öllu saman þegar vegurinn verður slæmur. En þar erum við líka háð veðri líka  Við getum ekki heflað í mikilli rigningu ef vegurinn er mjög blautur,“ segir Bríet Arnardóttir, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Patreksfirði.

Í sumar hefur tíðin verið mjög slæm til að hefla. Þá er möl borin í veginn öðru hverju en Bríet segir ekki nægilegt fjármagn vera til að gera það árlega. Bríet segir veginn ekki þola þá miklu umferð sem um hann fer og bindur vonir við að fjármagn verði tryggt til að gera megi nýjan veg. „Það er löngu kominn tími á þetta hjá okkur. Það er bara einfaldlega þannig.“