Holland: Tyrkneskum ráðherra vísað úr landi

12.03.2017 - 01:36
epa05842853 A picture made avaliable 11 March 2017 shows, Turkish Minister of Family and Social Policies Fatma Betul Sayan Kaya poses in Ankara, Turkey, 27 September 2016. The Turkish Minister of Foreign Affairs Mevlut Cavusoglu had planned a speech in
Fatma Betül Sayan Kaya, ráðherra fjölskyldumála í Tyrklandi, var vísað frá Hollandi í kvöld og flutt að þýsku landamærunum í lögreglufylgd.  Mynd: EPA
Deila Hollendinga og Tyrkja, sem blossaði upp eftir að flugvél tyrkneska utanríkisráðherrans var synjað um lendingarleyfi í Rotterdam á laugardagsmorgun, heldur enn áfram að harðna. Í kvöld var fjölskyldumálaráðherra Tyrklands, Fatma Betül Sayan Kaya, vísað frá Hollandi í lögreglufylgd, ásamt öllu sínu föruneyti. Áður hafði henni verið meinaður aðgangur að tyrknesku ræðismannsskrifstofunni í Rotterdam. Þangað kom hún akandi frá Þýskalandi.

Ráðherrann greindi frá því á Twitter að hún hefði verið stöðvuð um 30 metra frá ræðismannsskrifstofunni og bannað að fara lengra. Kaya vandar hollenskum yfirvöldum ekki kveðjurnar á Twitter. „Lýðræði, grundvallarréttindi, mannréttindi og frelsi. Allt er þetta gleymt í Rotterdam í kvöld. Þar ríkir aðallega harðstjórn og kúgun," skrifaði ráðherrann eftir að för hennar var stöðvuð.

Í framhaldinu hugðist hún ávarpa mótmælafund landa sinna í Rotterdam, en fékk eki að gera það heldur. Nýjustu fregnir herma að henni hafi nú verið vísað formlega úr landi og flutt að þýsku landamærunum í fylgd lögreglu. Borgarstjórinn í Rotterdam, Ahmed Aboutaleb, staðfesti þetta við fréttamenn.

Kaya kom til Hollands ásamt nokkrum tyrkneskum stjórnarerindrekum öðrum. Samkvæmt hollenskum fjölmiðlum mun hún hafa ætlað að ávarpa kosningafund og fengið skýr skilaboð frá hollenskum yfirvöldum og borgaryfirvöldum í Rotterdam, um að hún væri ekki velkomin.

Fyrr í kvöld tilkynnti utanríkisráðuneyti Tyrklands hollenska sendiherranum, sem staddur er utan Tyrklands, að hann sé ekki velkominn aftur til landsins um óákveðinn tíma.