HM í beinni: Dagur 9 - Bolt og Farah kveðja

12.08.2017 - 08:00
Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum hófst í London á 4. ágúst og stendur yfir fram á sunnudagskvöld. Í dag er níundi og næstsíðasti keppnisdagur HM og í kvöld lýkur Usain Bolt frá Jamaíku glæstum keppnisferli sínum í frjálsum íþróttum. Sigurbjörn Árni Arngrímsson lýsir móti á RÚV og RÚV 2, og hann fer hér yfir það sem honum finnst mest spennandi í dag.

Útsending frá keppni dagsins hefst kl. 9:00 á RÚV 2. Útsending frá seinni keppnishluta dagsins hefst svo kl. 17:50 á RÚV og stendur yfir fram að fréttum kl. 19. Öll keppni kvöldsins verður hins vegar sýnd á RÚV 2.

Dagskráin á HM í dag

9:00 - Tugþraut (110 m grindahlaup)
9:35 - 4x100 m boðhlaup kvenna, undanrásir
9:55 - 4x100 m boðhlaup karla, undanrásir
10:00 - Tugþraut (kringlukast)
10:20 - 4x400 m boðhlaup kvenna, undanrásir
10:50 - 4x400 m boðhlaup karla, undanrásir

17:55 - Tugþraut (spjótkast)
18:05 - Hástökk kvenna, úrslit
19:05 - 100 m grindahlaup kvenna, úrslit
19:15 - Spjótkast karla, úrslit
19:20 - 5000 m hlaup karla, úrslit
19:45 - Tugþraut (1500 m hlaup)
20:30 - 4x100 m boðhlaup kvenna, úrslit
20:50 - 4x100 m boðhlaup karla, úrslit

epa06128896 Jamaica's Usain Bolt poses with his bronze medal on the podium of the men's 100m final at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 06 August 2017.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Usain Bolt kveður frjálsíþróttasviðið í kvöld.

Bolt kveður í kvöld

„Síðasta keppnisgreinin í kvöld eru úrslitin í 4x100 m hlaupi karla. Þar hleypur Usain Bolt í síðasta sinn. Fyrirfram myndi maður búast við því að baráttan um gullið verði milli Jamaíka og Bandaríkjanna. En samt eru Bretar og Trinidadar sem eiga betri tíma í ár, en það er ekkert að marka það held ég. Bretarnir reyna nú örugglega að blanda sér í baráttuna, verandi á heimavelli. En það verður gaman að fylgjast með Japönum líka,“ segir Sigurbjörn Árni, en það verður einnig keppt til úrslita í 4x100 m boðhlaupi kvenna í kvöld.

„Andrúmsloftið verður örugglega rafmagnað í kvöld og þetta kvöld verður væntanlega mjög skemmtilegt. Usain Bolt og Mo Farah báðir að kveðja og troðfullt á vellinum. En það er líka alltaf mikil spenna í kringum þessi boðhlaup, því þarf svo lítið að gerast og þá er allt í uppnámi. Ef menn missa kefli, eða klikka á einhverri skiptingu. Það er sérstaklega hætt við því í 4x100 m hlaupinu,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson sem stendur vaktina í London.

epa06134395 Britain's Mo Farah (R) and Muktar Edris (L) of Ethiopia compete in the men's 5,000m heats at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 09 August 2017.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Mo Farah hleypur í kvöld sitt síðasta brautarhlaup á stóra sviðinu.

Síðasta brautarhlaup Mo Farah á stóra sviðinu

„Mo Farah hleypur sitt síðasta brautarhlaup á stórmóti í kvöld, þegar hann mætir í úrslitin í 5000 metra hlaupið. Það verður eins í þessu hlaupi og hjá honum í 10.000 m hlaupinu, að hann verður í baráttunni við Úgandamenn og Eþíópíumenn. Farah á fjórða besta tímann í 5000 m hlaupi á þessu ári. Fyrirfram hafði ég meiri trú á honum í 10.000 m hlaupinu en 5000 m hlaupinu. En ég ætla samt ekkert að útiloka það að hann vinni gullið líka í 5000 m hlaupinu í kvöld,“ segir Sigurbjörn Árni um úrslitin í 5000 m hlaupi karla í kvöld, þar sem Bretinn vinsæli Mo Farah freistar þess að vinna gullið fjórða heimsmeistaramótið í röð.

epa06135991 Johannes Vetter of Germany competes in the men's Javelin qualification at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Johannes Vetter er sigurstranglegastur í spjótkastinu.

Þrír þýskir á palli í spjótkastinu?

„Svo eru úrslitin í spjótkasti karla í kvöld líka. Þar eru tveir Þjóðverjar sem hafa kastað í kringum 94 metra í ár. Johannes Vetter og Thomas Röhler. Þjóðverjar gætu meira að segja tekið þrefalt í spjótinu, því Andreas Hoffman hefur kastað rétt undir 90 metra í ár. En þar stutt á eftir er Finninn Tero Pitkämäki og jafnvel spurning um heimsmeistarann frá því fyrir tveimur árum, Julius Yego frá Keníu. En þetta verður mjög sterk spjótkastskeppni,“ segir Sigurbjörn Árni um spjótkastskeppnina í kvöld.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður