Hlutabréf lækkuðu í Bretlandi og gengi hækkaði

18.04.2017 - 18:24
Erlent · Bretland · Brexit · Evrópa · Stjórnmál
epa05913358 British Prime Minister Theresa May ahead of delivering a statement outside 10 Downing Street in London, Britain, 18 April 2017. British Prime Minister Theresa May has announced that she will call for a snap general election for 08 June. EPA
Theresa May tilkynnir að hún hyggist boða til þingkosninga 8. júní næstkomandi  Mynd: EPA
Hlutabréf lækkuðu í verði í Bretlandi í dag. FTSE 100 hlutabréfavísitalan breska lækkaði um 2,46 prósent og stóð í 7.147,50 punktum við lok viðskipta síðdegis. Verðbréfamiðlarar telja að dýfuna megi rekja til þess að Theresa May forsætisráðherra tilkynnti í dag að hún hygðist efna til þingkosninga 8. júní næstkomandi.

Gengi sterlingspundsins styrktist um eitt og hálft prósent gagnvart dollar af sömu ástæðu. Viðskiptaheimurinn í Bretlandi hefur brugðist misjafnlega við tíðindunum. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir að þingkosningar í júní breyti engu um brotthvarf Breta úr ESB.

Theresa May leggur tillögu sína um kosningar í júní fram á þingfundi á morgun. Tveir þriðju hlutar þingmanna þurfa að samþykkja hana til að hún nái fram að ganga.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV