Hitti Mulkikar einu sinni og veitti meðmæli

19.01.2017 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Pawan Mulkikar  -  RÚV
Sveitarstjórn Borgarfjarðarhrepps líst vel á áform indverska fjárfestisins Pawan Mulkikar um byggingu vatnsverksmiðju í sveitarfélaginu. Hún mælti með fjárfestinum við fjármála- og efnahagsráðuneytið án þess að biðja um nánari gögn um fyrri fjárfestingar og verkefni Mulkikars.

Mulkikar svaraði spurningum fréttastofu með tölvupósti fyrr í þessari viku, en þar sagðist hann ætla að fjárfesta fyrir samtals tvær milljónir dollara á síðasta ári og þessu eða um 225 milljónir króna. Ástæðan fyrir því að Borgarfjörður eystri varð fyrir valinu var tenging sem hann fann fyrir þegar hann var í skipulagðri gönguferð um svæðið en hann fór þó í ferðina fyrir tilviljun.

Hefur hitt Mulkikar einu sinni

Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps, segist hafa hitt Mulkikar einu sinni og honum líst vel á verkefnið sem og sveitarstjórninni allri.

„Okkur líst bara ágætlega á þessi plön, þetta er bara spurning um ný atvinnutækifæri á staðnum og heilsársstörf. Okkur líst bara vel á það,“ segir Jón.

Einn sveitarstjórnamanna er Arngrímur Viðar Ásgeirsson, en hann á hlut í fyrirtækinu utan um verkefnið og fyrirhugað er að verksmiðjan rísi á landi föður hans. Arngrímur hefur því setið hjá við allar afgreiðslur málsins í sveitarstjórn.

Veittu meðmæli

Jón segir að það sem snúi að sveitarfélaginu í þessu verkefni séu fyrst og fremst skipulagsmál og viðskiptahliðin á því komi sveitarstjórn í raun lítið við. Hún var þó beðin um að veita Mulkikar meðmæli til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og varð við þeirri beiðni án þess að óska eftir frekari upplýsingum um fjárfestingar Mulkikars.

„Beiðnin kom til okkar í gegnum íslenska lögmannsstofu svo við sáum ekkert við það að athuga.

Já, en þið hafið ekkert óskað eftir frekari upplýsingum um hans fjárfestingar erlendis eða einhver umsvif?

Nei,“ segir Jón.