Hinsta kveðja á baðherbergi vegna plássleysis

11.05.2017 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Aldraðir á Hornafirði hafa beðið í fjórtán ár eftir stækkun á hjúkrunarheimili staðarins. Þar eins og víða um land þurfa aldraðir að deila herbergi með ókunnugum, búa við mikið ónæði og sumir eru með heilabiluðum í litlu herbergi. Hjúkrunarheimilið er yfirfullt og deyjandi fólk hefur verið flutt inn á baðherbergi svo að ástvinir geti kvatt það í ró og næði.

Náttborð, skápur og rúm

Hjúkrunarheimilið Skjólgarður á Höfn í Hornafirði var tekið í notkun fyrir rúmum 20 árum. Þar búa nú 24 og fá aðeins tveir þeirra eigið herbergi. Allir hinir 22 búa við þröngan kost, náttborð, skáp og rúm og þurfa að deila herbergi með öðrum. „Það getur fylgt því verulega mikið ónæði og sérstaklega kannski á nóttunni ef það þarf að vera að sinna öðrum en ekki hinum. Það truflar nætursvefn hjá þeim sem þarf ekki að vera að sinna. Og ef um heilabilun er að ræða hjá öðrum einstaklingnum þá getur því fylgt verulega mikið ónæði fyrir hinn,“ segir Valgerður Hanna Úlfarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Skjólgarði.

Átti að stækka árið 2003

Árið 2003 átti að byggja næsta áfanga en því var frestað. Fyrir þremur árum var innleidd dönsk hugmyndafræði með áherslu meðal annars á sjálfsákvörðunarrétt en plássleysið takmarkar allt einkalíf mjög. Það getur líka verið til baga á erfiðum stundum. „Það getur verið snúið fyrir aðstandendur og þá sérstaklega þegar er jafnvel verið að kveðja einstakling. Þá þarf að færa menn í annað rými og þá jafnvel inn á bað því að það er ekkert annað í boði. Og fjölskyldan hefur þurft að kveðja sinn ástvin þar. Og það getur verið verulega erfitt,“ segir Valgerður.

Kynslóðirnar hittast í Skjólgarði

Á Skjólgarði hittast stundum foreldrar í fæðingarorlofi og í leiðinni eiga yngstu og elstu Hornfirðingarnir saman stund. Elstur er Gísli Ólafur Arason en hann verður hundrað ára í september og Lilja systir hans er elst kvenna fimm árum yngri og nýtur þess að hitta börnin. „Mér finnst það bara afskaplega skemmtilegt og maður verður bara miklu yngri af því að sjá þau í kringum sig,“ segir Lilja.

„Allt of þröngt“

Gísli fer út á hverjum degi á rafskutlu og liggur ekki á skoðunum sínum á aðstöðunni innandyra. „Þetta var á sínum tíma byggt fyrir rúmliggjandi fólk. Það er orðið allt of þröngt og erfitt fyrir starfsfólk að vinna hér. Það þarf að byggja bara nýja álmu.“

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV