Hin varhugaverða nostalgía

26.04.2017 - 16:06
Lestin · nostalgía · Pistlar · Menning
Er nostalgían alltaf af hinu góða? Í dag fjallar Sóla Þorsteinsdóttir um tilhneigingu okkar til að fegra fortíðina. Ættum við frekar að horfa fram á við? Sóla talar um DDR safnið í Berlín, nostalgíuna í pólítík og stúdentsprófin í MR, svo fáeitt sé nefnt.

Sóla Þorsteinsdóttir skrifar:

Í dag langar mig að tala um fyrirbæri sem getur tekið á sig margar myndir, eftir því hvað liggur að baki. Þetta er nostalgían. Þessi yndislega, notalega nostalgía. Hún getur nefnilega verið ótrúlega skemmtilegt fyrirbæri. Notalegt. Hún umvefur gamlar tilfinningar einhverjum hjúp sem er erfitt að slíta þær úr.

… og svona getur nostalgían verið blekkjandi. Á þeim stundum sem hún hellist yfir mig, þá voru stúdentsprófin uppáhalds tíminn minn í MR. Já, mér fannst bara virkilega notalegt að vera í prófum. Og ég held ég sé nú reyndar ekkert ein um þetta. Þessi prófanostalgía verður að hálfgerðri sjálfsbjargarviðleitni þegar þú ert námsmaður. Á miðri önn fer maður hálfpartinn að hlakka til prófanna. Því, æh. Þetta er svo notalegur tími. Sitja langt fram eftir yfir bókunum, í stresskasti rétt fyrir próf. Mm, svo kósí.  Og þetta gerum við. Við fegrum eitthvað og horfum til baka með söknuði. Við lítum til baka og sjáum bara hið góða. Það var alltaf sól og sumar þegar ég var krakki. Fjöllin voru stærri. Himininn blárri. Rólurnar gátu farið hring, eftir hring, eftir hring.

En þessi nostalgía er ekki alsaklaus. Dæmi um það er vinsælt safn í Berlín, sem samkvæmt internetinu er ellefta mest skoðaða safnið í Berlín. Þetta er DDR safnið, þar sem gestir geta gengið um og upplifað sanna austur-þýska stemmningu. Eða hvað?  Samkvæmt umfjöllun The Guardian um safnið voru fyrrum Austur-Þjóðverjar ekki allir par sáttir við birtingarmynd sinna gömlu heimkynna. Hinn austurþýski hversdagsleiki birtist sem einfaldur, ópraktískur, leiðinlegur, og kómískur, svo eitthvað sé nefnt. Og jú, samkvæmt greinarhöfundi höfðu Austur-Þjóðverjar vissulega húmor fyrir sjálfum sér og gerðu grín að kerfinu í sífellu. En það var sjálfsbjargarviðleitni í spennuþrungnu ástandi. Já, þeir halda nú áfram að horfa til þessa tíma í blöndu af húmor, hryllingi og létti, að þessi tími í lífi þeirra sé liðinn. En sýningarnar í DDR safninu eru ætlaðar túristum, og sér í lagi vestrænum túristum. Hin austurþýska menning er gerð að skemmtiatriði sem túristunum er boðið að taka þátt í. Þjóðverjar hafa kallað þetta Ostalgíu, nostalgíu til tíma Austur-Þýskalands. En við erum í hættu stödd ef við ætlum bara að fegra þennan tíma, muna hann fyrir krúttlegheitin, en ekki það sem var raunverulega að baki.

Við þurfum að vera meðvituð um beitingu þessarar nostalgíu. Ef við lítum bara til pólítískrar umræðu, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, nú á síðastliðnum misserum, sést að það ríkir mikil óánægja með núverandi ástand. En í stað þess að líta fram á við, ríkir einhver undarleg tilhneiging til að líta til baka. Og þegar pólítíkusar gera í því að beita nostalgíunni í þeim tilgangi að sameina fólk í úreltri þjóðernishyggju, þá erum við í hættu stödd. Nægir í því samhengi að nefna spennuþrungið ástand í Frakklandi og Marine Le Pen sem hefur mikið gert út á nostalgíska þjóðernishyggju. En virðist - sem betur fer - ekki hafa jafn mikil ítök og margur hafði óttast. Sjáum til.

… Fjarlægðin gerir fjöllin blá en þá er ekki þar með sagt að fjöllin hafi verið blá á sínum tíma. Og bara því þú minnist þess að fjöllin hafi verið blá á einhverjum tímapunkti, gerir það ekki að verkum að þessi sömu fjöll geti ekki verið blá núna, ef þú gefur þér tíma til að líta upp úr eigin nostalgíu og sjá það sem er að gerast, núna. Við erum alltaf á því að hlutirnir hafi verið betri þarna eða skemmtilegri þá. En voru þeir það virkilega? Hvernig væri að hætta að fegra alltaf það sem var og setja alltaf þá áherslu að við ættum að gera hlutina aftur eins og við gerðum þá? Hvernig væri að reyna að bæta hlutina núna? Ekki að reyna að draga þá aftur í gamalt form sem er ekki einu sinni víst að hafi nokkurn tíma verið eins og við munum það. Nei, ég segi bara svona.

 

 

 

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi