Heyrnartól sprungu á höfði flugfarþega

15.03.2017 - 05:12
epa05848833 An undated handout photo made available by the Australian Transport Safety Bureau (ATSB) on 15 March 2017 shows a woman with facial injuries after the headphones she was wearing exploded. A woman on a flight from Beijing, China, to Melbourne,
 Mynd: EPA  -  AAP/ATSB
Kona vaknaði af værum blundi í flugvél á leið frá Peking til Melbourne í gær þegar þráðlaus heyrnartól sprungu á höfði hennar. Hún vaknaði við sprengjuhljóðið og henti af sér heyrnartólunum. Neistar flugu af þeim áður en það kviknaði í þeim og þau bráðnuðu. Sprengingin og eldurinn svertu andlit hennar og skildu eftir blöðrur á höndunum.

Í skýrslu samgönguöryggisnefndar Ástralíu, ATSB, segir að konan hafi verið að hlusta á tónlist þegar heyrnartólin sprungu. Hún hafi gripið um andlitið þegar þau sprungu og þau hafi við það færst niður á hálsinn. Þá hafi hún gripið þau og hent á gólf flugvélarinnar. Þar neistaði af þeim og þau byrjuðu að loga.

Áhöfn flugvélarinnar náði að slökkva eldinn með því að hella vatni yfir heyrnartólin. Rafhlaða þeirra og ytra byrði, sem var úr plasti, var þá bráðnað og fast við gólfið. ATSB segir farþega hafa þurft að lifa við brunalykt og lykt af bráðnuðu plasti það sem eftir lifði flugferðarinnar. Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, er tegund heyrnartólanna ekki getið í skýrslunni.

Rafhlöðuknúin þráðlaus tæki hafa valdið talsverðum usla í flugvélum sökum þess að kvikna vill í þeim. Liþíum rafhlöður eiga það til að ofhitna, en rýma þurfti flugvél í Syndey í fyrra eftir að reykur kom úr handfarangri í vélinni. Þar kom í ljós að kviknað hafði í liþíum rafhlöðum í handfarangri eins farþega. Þá var snjallsímategundin Samsung Galaxy Note 7 bönnuð af mörgum flugfélögum vegna framleiðslugalla sem olli sprengingu í rafhlöðum hennar.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV