„Hey stelpa, þú ert ekkert svona góð“

Melína Kolka Guðmundsdóttir og Hlín Hrannarsdóttir hafa stofnað hóp á Facebook sem kallast GG Girl Gamers. Þær segja að tilgangurinn sé að gefa konum vettvang til að tala sín á milli um tölvuleiki og kynnast öðrum sem hafa sömu áhugamál.

Melína Kolka segir hugmyndina hafa komið til í starfi sínu á netkaffihúsinu Ground Zero og tilgreinir að þörfin á slíkum félagsskap sé til staðar. „[Ég] er búin að spá mikið í því afhverju ég sé aldrei stelpur koma inn. Það er alltaf nóg af strákum en kannski ein stelpa sem kemur reglulega. En hvar eru þær?“ Hún segir að viðbrögðin við framtakinu hafi verið mjög góð og hópinn hafa stækkað mjög hratt á örfáum dögum, en hann var stofnaður 27. maí. Í dag telur hópurinn 240 meðlimi.

Alls konar leikir

Hlín segir umræðuna um tölvuleiki á síðunni fjölbreytta. „Vinsælasti leikurinn er pottþétt Overwatch. Flestir spila Overwatch þarna inni,  en svo er þetta bara allt, það voru einhverjir að tala um Battlefield í gær, og Heroes of the storm, og það eru líka einhverjar sem spila CS go [Innsk. blm: Counter-Strike: Global Offensive], sem er mjög vinsælt.“ Hún segir flóruna vera allt frá fjölspilunarleikjum, þar sem margir leikmenn taka þátt í einu, yfir í leiki sem leikmaður spilar einn. „Sérstaklega Witcher og Elder Scrolls serían.“

Mynd með færslu
 Mynd: Joao Ferrao 2014  -  Pexels.com

Þora frekar að spyrja í kvennahópum

Melína segir að það sé greinilega nóg af konum að spila tölvuleiki á Íslandi „Það skemmtilega við þennan hóp er að ég sé að þær eiga samskipti allt öðruvísi en á öðrum tölvuleikjahópum sem eru til á Facebook. Þær þora miklu meira að spyrja, að leita ráða, og eru að koma sér saman í leiki.“ Hún bætir við að hún hafi staðið fyrir einskonar konukvöldi á kaffihúsinu þar sem hún vinnur. „Mætingin var bara frábær. Við náðum að fylla heilan sal þarna. Maður var að sjá tvö fimm manna lið, tvö sex manna lið mætast, þú veist, allt bara stelpur. Og bara mjög skemmtileg tilbreyting frá því sem er venjulega.“

Stelpur lenda í áreiti

Aðspurð hvers vegna karlar séu svo mikið meira áberandi en konur í tölvuleikjaheiminum svarar Hlín: „Ég er ekki viss [...] Það er kannski líka mikið feimni, maður vill ekkert  vera mikið að auglýsa sig og láta vita af sér, sérstaklega ef maður er bara að gera þetta með vinum sínum.“ Melína tekur í sama streng. „Ef þú ert stelpa, þá lendirðu oft í áreiti í svona hópum. Ekkert alltaf mjög grófu eða þannig, en segjum að ég myndi pósta inn á svona leikjahóp annan en GG Girls hópinn, þá fer strax umræðan að snúast um eitthvað allt annað. Hún fer alltaf miklu meira að snúast um „Hey stelpa, þú ert ekkert svona góð, með hverjum ertu búin að vera að spila?““ 

Melína Kolka Guðmundsdóttir og Hlín Hrannarsdóttir mættu í Morgunútvarp Rásar 2 og sögðu frá stofnun hópsins GG Girl Gamers