Hentu 500 lítrum af mjólk vegna rafmagnsleysis

17.05.2017 - 19:25
Spennusveiflur, sem urðu í raforkukerfinu í morgun, ollu tjóni á raftækjum á Austurlandi og um tveggja klukkustunda rafmagnsleysi truflaði atvinnulíf í fjórðungnum. Í MS á Egilsstöðum þurfi að henda mjólk og minnstu munaði ostur harðnaði í tönkum. Truflunina má rekja til leka úr keri álversins á Grundartanga, hinum megin á landinu.

Rafmagn fór af um klukkan sjö í morgun á stóru svæði frá Kirkjubæjarklaustri að Vopnafirði. Áður en rafmagnið fór alveg sveiflaðist spennan og olli tjóni hjá Landsneti og víðar. Í tengivirki Landsnets á Reyðarfirði má sjá afleiðingar af þessum spennusveiflum sem áttu upptök sín hinum megin á landinu. Svokallaður eldingavari brann yfir og tæknimenn Landsnets könnuðuð í dag hvort fleira hefði skemmst í tengivirkinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er þörf á að styrkja byggðalínuna til að truflun á einum stað valdi ekki vandræðum í öðrum landshlutum. Sú uppbygging hefur reyndar tafist árum saman vegna deilna um jarðstrengi og loftlínur.

Fréttastofa hefur í dag heyrt af lyftum, tölvum og símum sem biluðu í spennusveiflum. Á Egilsstaðaflugvelli skemmdist varaaflgjafi sem tengdur var við leiðréttingarstöð fyrir GPS staðsetningarbúnað. Það tjón er metið á eina og hálfa milljón.

Framleiðslufyrirtæki eru sum mjög viðkvæm fyrir rafmagnsleysi og það á við um Mjólkursamsöluna á Egilsstöðum. Þar var vinnsla komin á fullt þegar vandræðin dundu yfir. „Það sem gerist þegar rafmagnið fer er að þetta stoppar allt saman. Það sem er í gerilsneyðingunni þurfum við að skola út og henda sem er í þessu tilfelli einhverjir 500 lítrar. Ostatankurinn hann stoppar og undir venjulegum kringumstæðum má hann ekki stoppa. Ég myndi segja að ef rafmagnið hefði farið 15 mínútum seinna þá hefði þetta allt orðið að einum stumpi í botninum. Það eru 1000 kíló og þá hefði hann ekkert farið í gang aftur. Þá þurfum við að moka því úr og henda því,“ segir Ingvar Friðriksson, framleiðslustjóri MS á Egilsstöðum. Hann segir að fyrritækið hafi þurft að henda osti vegna þessa. „Maður hefur alveg skilning á því þegar veðrið er þannig að rafmagnsleysi verði í vondum veðrum um miðjan vetur en þetta er kannski tímasetning sem við áttum ekki alveg von á,“ segir Ingvar.