Helmingur Breta styður May og Íhaldsflokkinn

22.04.2017 - 23:20
epa05913358 British Prime Minister Theresa May ahead of delivering a statement outside 10 Downing Street in London, Britain, 18 April 2017. British Prime Minister Theresa May has announced that she will call for a snap general election for 08 June.  EPA
 Mynd: EPA
Helmingur breskra kjósenda hyggst fylkja sér að baki forsætisráðherranum, Theresu May, og Íhaldsflokknum í þingkosningunum í júní, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birt verður á morgun. Skoðanakönnunarfyrirtækið ComRes gerði könnunina fyrir sunnudagsútgáfu götublaðsins Mirror. Talsmaður ComRes segir þetta í fyrsta skipti frá því í janúar 1991, sem Íhaldsflokkurinn mælist með hreinan meirihluta í skoðanakönnun.

Flokkurinn bætir við sig fjórum prósentustigum frá síðustu könnun, sem gerð var fyrir viku. Fylgi Verkamannaflokksins helst óbreytt í 25 prósentum og Frjálslyndir demókratar eru líka með sama fylgi og síðast, eða 11 prósent. Fleiri skoðanakannanir hafa verið birtar nú um helgina og sýna allt frá 40 upp í 48 prósenta stuðning við Íhaldsflokkinn, en 25 - 29 prósenta fylgi Verkamannaflokksins.

Theresa May hélt fréttamannafund á þriðjudaginn var og tilkynnti, að hún hygðist boða til kosninga þann 8. júní næstkomandi, tveimur árum fyrr en nauðsynlegt hefði verið. Með því, sagði May, vildi hún tryggja sér og sínum flokki skýrt og óskorað umboð kjósenda í yfirvofandi viðræðum um viðskilnað Bretlands við Evrópusambandið.