Heimurinn þarf á rómantík Þórbergs að halda

„Mig langaði í kjarnann á Þórbergi, að skoða hann og hans heimspeki og lífssýn,“ segir Edda Björg Eyjólfsdóttir, höfundur og leikstjóri Þórbergs, nýrrar leikgerðar um ævi Þórbergs Þórðarsonar, sem frumsýnt var í Tjarnarbíó á dögunum.

Edda semur leikgerðina ásamt Sveini Ólafi Gunnarssyni leikara og leikhópnum, sem naut líka ráðgjafar Péturs Gunnarssonar rithöfundar. Leikgerðin er unnin upp úr viðtalsbókinni Í kompaníi við allífið eftir Matthías Johannessen og Bréfi til Sólu, ásamt fleiri bókum.

Dramatísk útgáfa af Maður er nefndur

Umgjörð leikritsins sækir innblástur í annað frægt viðtal, þegar Magnús Bjarnfreðsson ræddi við Þórberg í sjónvarpi. Samtöl þeirra eru brotin upp með endurlitssenum og brotum úr lífsspeki Þórbergs.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Edda Björg Eyjólfsdóttir, höfundur sýningarinnar.

„Mig langaði að láta reyna á það, að sjá þessa menn spjalla og fleyga inn í uppákomum,“ segir Edda.  „Það var mikið grínast með að við ætluðum ekki að gera Maður er nefndur en svo enduðum við á að gera það.“

Tengi við margt í fari Þórbergs

Friðrik Friðriksson leikur Þórberg og segir það ekki hafa vaxið sér sérstaklega í augum að leika þessa víðfrægu persónu. „Í samvinnu við leikstjóra var ákveðið að halda þessu nær mér frekar en að eltast við að búa til Þórberg, apa hann eftir eða líkja eftir honum nákvæmlega.“Friðrik segist tengja við ýmislegt í fari Þórbergs. „Ég eins og Þórbergur hef duflað við jóga og hugleiðslu, verið mikið að hlaupa og og í líkamsrækt. Erum við ekki öll í sjóböðum endalaust? Svo þetta að skrásetja lífið. Við erum alltaf að skrásetja, til dæmis í bloggfærslum eða Facebook-færslum. Við erum alltaf að skrásetja allt í kringum okkur, ég tengi við það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórbergur var mikið fyrir sjóböð og Müllers-æfingar eins og komið er inn á í sýningunni.

Edda segir þörf á að minna á lífsspeki Þórbergs í dag. „Það er svo margt sem hræðir okkur og maður upplifir heiminn á hverfanda hveli, að fara inn í rómantík,  það sem er fallegt og hefur okkur upp og snertir við okkur. Mér finnst það allt vera hjá honum.“

Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Menningin
Kastljós