Heimskautaísinn hverfur

23.03.2017 - 18:44
epa02918305 A Greenpeace International handout photo released on 15 September 2011 shows two crew members get their first sight of sea ice from the bow of the Arctic Sunrise, in waters off of arctic Svalbard. The organisation has arrived in the arctic at
 Mynd: EPA  -  GREENPEACE INTL.
Nýjar gervihnattamyndir sýna að vetrarís á Norður-Pólnum er sá minnsti frá upphafi mælinga, þriðja veturinn í röð. Lagnaðarís hefur minnkað vegna hærri lofthita af völdum loftslagsbreytinga. Vísindamenn vara við alvarlegum afleiðingum þessa, öfgum í veðri sem hafi áhrif á líf milljóna manna.

 

Íshellan á sjónum við Norður-Pólinn mælist nú rúmlega 14 milljón ferkílómetrar og er minni en hún hefur verið síðustu 38 vetur einnig er ísinn þynnri en áður.

Vísindamenn bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA segja að útreiðsla langanaðaíss á norðurhöfum hafi dregist saman um 2,8 prósent. Lítill vetrarís nú fylgir miklum lofthita í haust og í vetur þar sem hitinn hefur verið að meðaltali tveimur og hálfri gráðu hærri yfir Norður-íshafinu en áður. Þá hefur met einnig verið slegið við Suðurheimskautið í mars. Þar sem nú er sumar þar er minni hafís nú en nokkru sinni frá því að mælingar hófust.

Vísindamenn líkja því þegar að sjó leggur og bráðnar við pólana við hjartslátt jarðar, sem knýi áfram hafstrauma og stilli loftslag. Nýjar rannsóknir sýni að gríðarleg bráðnun íss í norðurhöfum valdi nú þegar öfgum í veðri, sem hafi áhrif á líf milljóna manna, meðal annars í Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu.

Veðurfræðistofnun Sameinuðu-Þjóðanna segir að árið 2016 hafi verið heitasta ár í heiminum frá því að mælingar hófust og allt bendi til að hitametin verði enn slegin á þessu ári. 

 

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV