Heimir: Viðar var ekki ölvaður á Ítalíu

17.03.2017 - 15:38
Heimir Hallgrímsson segir Viðar Örn Kjartansson ekki hafa verið ölvaðan þegar íslenska landsliðið kom saman á Ítalíu í haust í undirbúningi leiksins gegn Króatíu. Hann segir þjálfarana ekki geta refsað mönnum fyrir það sem þeir geri utan landsliðsins.

Vísir.is greinir frá því í dag að Viðar Örn hafi mætt ölvaður til móts við landsliðið á Ítalíu í aðdraganda leiksins gegn Króatíu í haust.

Samkvæmt heimildum Vísis hitti Viðar Örn hluta U-17 ára liðs Íslands á flugvelli í Ísrael, þar sem Viðar Örn leikur og ungmennalandsliðið var í æfingaferð. Þar mun hann hafa verið undir áhrifum áfengis. Þetta var daginn áður en A-lið Íslands kom saman á Ítalíu til undirbúnings undir Króatíuleikinn.

Heimi var tilkynnt um málið en aðspurður segir hann að Viðar hafi ekki verið undir áhrifum þegar landsliðið kom saman á Ítalíu.

„Nei, alls ekki. En þetta var eitthvað sem við heyrðum og það mál var bara afgreitt. Það er leiðinlegt þegar svona kemur upp og hann sér eftir þessu og á eftir að sýna það fyrir okkur núna að hann tekur þetta til sín.
- Þannig að þið hafið ekki litið á þetta sem beint agabrot undir ykkar hatti og ákveðið að taka á því þannig?
- Nei, og við getum það ekki. Við getum ekki refsað mönnum fyrir það sem þeir gera þegar þeir eru ekki í landsliði og þetta er náttúrulega bara sögusögn sem að við getum ekkert staðfest.“

Viðar Örn var í leikmannahópnum gegn Króatíu og lék síðasta stundarfjórðung leiksins. Hann er í hópnum sem Heimir valdi í dag fyrir leikinn gegn Kósóvó 24. mars næstkomandi.

Áfengi ekki leyft

Á blaðamannafundi landsliðsins í dag sagði Heimir það alveg skýrt að áfengi sé ekki leyft í ferðum landsliðsins og sú regla hafi staðið. Hann sagði Viðar hafa flogið til Ítalíu daginn áður en landsliðið kom saman og sumu ráði þjálfararnir yfir en öðru ekki.

Ennfremur sagði hann að það hafi komið upp að leikmenn hafi óskað eftir því að fá sér bjór eftir landsleiki en því hafi alltaf verið hafnað.

Á fundinum í dag var Heimir spurður út í það hvort einhverjir hafi verið gripnir við áfengisdrykkju eftir leikinn við Króata og Heimir neitaði því.

„Það var ekki agabrot að neinu leyti. Menn voru að horfa á UFG og voru nánast allir í orkudrykkjum.“

Þegar hann var beðinn að skýra það betur sagði hann: „Sumir voru í vatni.“