„Heilmargt vantaði“ á Grímunni

21.06.2017 - 15:35
Leikhúsgagnrýnendur Víðsjár, Guðrún Baldvinsdóttir og María Kristjánsdóttir, hafa ýmislegt að setja út á tilnefningar til Grímunnar í ár, sem og hverjir hrepptu verðlaunin eftirsóttu. Þær settust í viðmælendastól Víðsjár þar sem þær fóru yfir tilnefningar og sigra og gerðu upp leikárið.

Guðrún og María voru báðar sammála um að verðlaunaafhendingin hafi verið of löng, en þegar þær voru spurðar að því hversu lengi þær myndu þrauka á leiðinlegu leikriti sögðu þær að leiðinlegt leikhús væri líka áhugavert.

„Mér finnst yfirleitt bara gaman í leikhúsi, þó leikritin séu leiðinleg, sýningarnar vondar, þá finnst mér bara gaman,“ segir María og Guðrún tekur í sama streng: „Já, ég er sammála því, mér finnst skemmtilegast í leikhúsi þegar sýningarnar eru mjög góðar eða mjög slæmar. Það er eiginlega verst þegar þær lulla svona áfram eins og léleg bíómynd. Þá hugsar maður, oh, um hvað á ég að spjalla í bílnum á eftir?

Skilur ekki að gengið hafi verið framhjá Húsinu

Hvernig leist gagnrýnendunum á úrslit Grímunnar, var eitthvað sem þeim fannst vanta eða kom þeim á óvart?

María segir að sér hafi fundist heilmargt vanta. „Sérstaklega skil ég ekki að Benedikt Erlingsson hafi ekki verið tilnefndur sem leikstjóri ársins, heldur ekki að sú sýning hafi ekki verið tilnefnd sem ein af sýningum ársins og ýmsir leikarar þar innandyra líka,“ segir María og á þar við Húsið sem Þjóðleikhúsið setti upp. „Eins skil ég ekki fálæti Íslendinga gagnvart Yönu Ross og sýningu hennar á Sölku Völku, því þar var mjög margt merkilegt á ferðinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson  -  Borgarleikhus.is
Gagnrýnendur Víðsjár telja margt merkilegt við uppsetningu Borgarleikhússins á Sölku Völku.

Guðrún tekur undir þetta og bætir við að þrátt fyrir að gagnrýnin sem Óþelló fékk hafi mörg hver verið skiljanleg þá hafi sér fundist sýningin flott. „Hún skildi mikið eftir sig.“ Hún furðar sig líka á vali dómnefndar á sýningu ársins, sem var hluti af Fórn og eru þær báðar sammála um að undarlegt sé að verðlauna hluta úr sýningu í þessum flokki. „Þetta var mjög erfið lífsreynsla að horfa á Fórn,“ segir María sem fór tvisvar að sjá verkið. „Það var margt mjög ánægjulegt og flott, þar á meðal þáttur Ragnars Kjartanssonar og Margrétar Bjarnadóttur [sem var valinn sýning ársins], en mér fannst þetta ekki ein af sýningum ársins, en það er kannski af því ég kem úr leikhúsinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: leikhusid.is
Óþelló var umdeild sýning og harður dómur Jóns Viðar um hana einnig.

Sjálf segist María myndi hafa valið Húsið sem sýningu ársins, en þó hafi margar sýningar verið henni að skapi. „Ég var mjög ánægð með að Sóley [Rós] ræstitæknir hafi fengið tvenn verðlaun, það fannst mér alveg frábær sýning og beint inn í okkar tíma.“

„Mér fannst sérstakt að Una Þorleifsdóttir hafi ekki unnið í flokknum leikstjóri ársins fyrir Tímaþjófinn,“ bætir hún við. „Hún vann vissulega fyrir Gott fólk, en mér fannst Tímaþjófurinn langtum betra verk. Það var vel unnin sýning sem bar virðingu fyrir frumtextanum, ljóðrænan í sýningunni var svo falleg og öll heildarmynd verksins. Allt passaði saman þarna hjá Unu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið
Björgvin Franz þótti fara á kostum í hlutverki Ragga Bjarna í sýningunn Elly.

„Mér fannst annkanalegt að Hún pabbi sé hvergi tilnefnd, fyrir ýmislegt, eins fannst mér skrýtið að Björgvin Franz skyldi ekki hafa unnið sem leikari ársins í aukahlutverki, fyrir Elly. Mér fannst líka aðrir hafi átt skilið útnefninguna fyrir leikkonu í aukahlutverki, en vinkona mín Kristbjörg Kjeld,“ segir María. „Einhvern veginn er eins og það sé einhver hefð í gangi, Óþelló verður að fá eitthvað, Kristbjörg er bara best, hún verður bara alltaf að fá, einhver svona kjánaafstaða. Eða þá að fólk hefur bara ekki séð nógu margar sýningar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið  -  Borgarleikhus.is
Gagnrýnendur Víðsjár telja undarlegt að einleikurinn Hún pabbi, þar sem Hannes Óli túlkar föður sinn sem kom út úr skápnum sem transkona, hafi ekki hlotið neinar tilnefningar.

Leikskáldin og heimildaleikhúsið

Uppgangur heimildaleikhússins hér á landi hefur verið nokkur undanfarið, en nokkrar þeirra voru tilnefndar til Grímunnar, þar á meðal Ævisaga einhvers eftir leikhópinn Kriðplei. „Mér fannst Ævisaga einhvers frábær,“ segir Guðrún. „Ég hugsa um hana bara eiginlega vikulega, það var eitthvað við hana; hversdagsleikinn og hvernig þeir settu sjálfa sig í verkið. Ég verð nefnilega að viðurkenna að mér finnst það ekki alltaf virka. Mér finnst heimildaleikhús, eins og ég hef gaman af því þegar það tekst vel til, þá er stundum eins og maður sé kominn í kennslustund eða þá einhvers konar tilfinningaklám.“

Heimildaleikhús er gjarnan unnið af leikhópum þar sem hver einstaklingur leggur ýmislegt af mörkum. En er hið hefðbundna leikskáld deyjandi stétt?

„Ég vona ekki,“ segir María, „mér finnst þessi sjálfbærni sem er farin að teygja sig inn í íslenskt leikhús, að leikararnir og leikstjórinn skrifi allir saman, vera á kostnað tungumálsins og máttar orðsins,“ Hún segir að oft sé þó leikskáld hluti af hópnum og það sé vel. „Að hluta til er þetta fátækt leikhússins sem gerir þetta að verkum, en að hluta til líka sjálfsánægja, sem er orðin ríkjandi í þessu samfélagi í heild.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kriðpleir  -  Tjarnabíó
Gagnrýnendur Víðsjár eru sammála um að Ævisaga einhvers, eftir leikhópinn Kriðplei, sé heimildaleikhús eins og það gerist best.

Guðrún tekur undir mikilvægi leikskáldsins í heimildaleikhúsi. „Það er svo ótrúlega mikilvægt að móta söguna og skrifa frásögnina. Heimildaleikhús er auðvitað skáldskapur, einhver ákveður að segja söguna á ákveðinn hátt.“ Hún bendir einnig á mikilvægi leikstjórans í þessu samhengi. „Þegar leikhópur býr til sýningu saman, þá finnur maður stundum að sýningin hefur staðið fólkinu of nærri. Það vantar leikstjóra til að búa til listrænt form.“

Blái hnötturinn er sýning sem mun lifa

Báðar voru þær sammála um að Blái hnötturinn hafi átt sín verðlaun fyllilega skilið, bæði í flokki barnasýningar ársins sem og tónlistarinnar. María segir umfjöllunarefnið gott og gaman að sjá börn virkjuð á þann hátt sem gert er í sýningunni. Guðrún tekur í sama streng og hrósar því sérstaklega að börn hafi þarna fengið tækifæri til að koma og horfa á önnur börn í leikhúsinu. „Ég hugsaði, þegar ég horfði á þessa sýningu, að þetta væri sýning sem myndi lifa. Það væri hægt að setja hana upp aftur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Blái hnötturinn var sigursælasta sýningun á Grímunni ár og gagnrýnendur Víðsjár telja hana vel að verðlaunum komna.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að ofan, en eins var rætt um hlutfall kynjanna í leikstjórastólnum, sem verður að teljast hafa verið nokkuð jafnt þetta árið; áhorfendahópa; hvort framtíðin sé björt í leikhúsinu og hvort hlutverk leikhússins sé að miðla samtímanum - eða hvert hlutverk leikhússins sé yfirhöfuð.