Heilbrigðan rekstur frekar en skammtímahugsun

13.03.2017 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er æskilegt að eigendur bankanna hafi áhuga á heilbrigðum rekstri til frambúðar, segir forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Henni hugnast lítt að vogunarsjóðir með skammtímahugsun ráði bönkunum.

 

Á næstu árum má búast við sölu slitastjórnar Kaupþings á 87 prósentum hlutafjár í Arion banka og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum.

Unnur Gunnnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að það slái sig ekki illa að ríkið haldi eftir stórum hlut í einum banka eins og kveðið er á um í drögum að eigendastefnu ríkisins fyrir bankana. „Bankar hafa ekki verið heit söluvara eftir fjármálaáfallið 2008/2009, ekki neins staðar. Það eru mikið þessir sjóðir sem stundum eru kallaðir vogunarsjóðir en sumir eru kallaðir fjárfestingarsjóðir og það er einhver blæbrigðamunur á þeim sem hafa verið að sýna þessu áhuga.“ Þeir séu misjafnlega virðingarverðir og fyrir Fjármálaeftirlitinu liggi að greina hvar eignarhald á sjóðunum liggur.

Vogunarsjóðir hafa verið í viðræðum um kaup á Arion banka samkvæmt fréttum fjölmiðla fyrir skemmstu. Slíkir sjóðir hafa það orð á sér að vilja ná inn miklum hagnaði á skömmum tíma. Unnur leggur áherslu á að langtímahugsun ráði för hjá þeim sem eigi bankana. „Ég tek undir með þeim sem hafa lýst þeirri skoðun að það sé æskilegt að það séu menn sem hafa áhuga á heilbrigðum rekstri til frambúðar. Það fer ekkert á milli mála.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV