Hefur ekki enn gefist færi á að syrgja

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
„Raunverulegt sorgarferli er ekki hafið,“ sagði Hanna Lára Helgadóttir, réttargæslumaður foreldra og bróður Birnu Brjánsdóttur, þegar hún gerði grein fyrir miskabótakröfu þeirra á hendur Thomas Møller Olsen vegna morðsins á Birnu. Hún var harðorð í garð fjölmiðla vegna umfjöllunar um málið. Þá sagði hún að ýmsir ókunnir einstaklingar hefðu talið sig eiga rétt á að banka upp á hjá fjölskyldu Birnu og segja frá sínum vandræðum.

„Áfalli fjölskyldu Birnu lýkur ekki með niðurstöðu þessa dómsmáls heldur mun tíminn einn leiða í ljós hvernig þeim reiðir af,“ sagði Hanna Lára. Hún lýsti þeim erfiðleikum sem fjölskylda Birnu hefði gengið í gegnum þegar „ljósgeislinn í lífi foreldra sinna og bróður“ hvarf og fannst síðan látin.  Síðustu dagar hefðu líka reynst fjölskyldunni erfitt og þurfi þau nú öll að bíða af sér veðrið áður en þau geti hafið raunverulegt sorgarferli.

Hanna Lára gerði kröfu um að Thomas greiddi foreldrum Birnu rúmar 20 milljónir króna í miskabætur og föður hennar útfararkostnað að auki.

„Fjölmiðlar ættu að taka það til skoðunar að endurskoða fréttaflutning af málum eins og þessum,“ sagði Hanna Lára. Hún gagnrýndi sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um réttarhöldin, sem hefðu nánast verið í beinni útsendingu. Hún las upp nokkur ummæli úr fréttum og sagði að faðir Birnu, sem setið hefur dómshaldið, hefði þurft að sitja við hliðina á fjölmiðlamönnum öll réttarhöldin. Þá sagði hún aðfinnsluvert að fréttamenn settu sig í spor rannsakenda og kæmu hugsanlega í veg fyrir að sönnunargögn finndust. Þar virtist hún vísa til blaðamanns sem sendi Thomasi skilaboð á Facebook meðan hann var um borð í Polar Nanoq. Fréttamaðurinn var ekki kallaður fyrir dóm.