Háu hælarnir urðu hondúrskum fanga að falli

11.05.2017 - 00:53
Mynd með færslu
San Pedro Sula, næststærsta borg Hondúras.  Mynd: amslerPIX  -  Flickr
Hondúrskum fanga mistókst um helgina að strjúka úr prísund sinni í borginni San Pedro Sula. Djúp röddin og grunsamlegt göngulag á háum hælum kom upp um hann þegar hann reyndi að skjögra út um gestainnganginn að fangelsinu klæddur í svart pils, svarthvíta blússu og sokkabuxur, með mikla, ljósa hárkollu á höfði og dökk sólgleraugu á nefinu.

Francisco Roman Herrera er mjósleginn 55 ára gamall maður sem afplánar nú fimmtán ára dóm fyrir nauðgun í fangelsinu í þessari næststærstu borg Mið-Ameríkuríkisins.

Herrera framvísaði skilríki með kvenmannsnafni á útleiðinni en fangaverðir við hliðið gátu ekki annað en tekið eftir karlmannlegri röddinni og veittu því sérstaka athygli að ekkert í álappalegu göngulaginu benti til þess að hinn meinti gestur hefði nokkurn tíma klæðst háum hælum fyrr.

Fréttastofan AFP segir frá því að í stað þess að sleppa úr fangelsinu hafi Herrera nú verið færður í enn strangara öryggisfangelsi. Það er kallað „Holan“ og þar mun hann hírast innan um meira en eitt þúsund félaga úr illræmdustu glæpagengjunum í Hondúras.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV