Hataðasta letur allra tíma hannað fyrir hund

Comic Sans
 · 
Lestin
 · 
Leturgerð
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni

Hataðasta letur allra tíma hannað fyrir hund

Comic Sans
 · 
Lestin
 · 
Leturgerð
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
29.06.2017 - 17:53.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
Fyrir tuttugu og fjórum árum bjó maður að nafni Vincent Connare til leturgerð sem hann nefndi Comic Sans. Leturgerð sem hann sá líklega ekki fyrir sér þá að yrði síðar meir þekkt sem „hataðasta letur allra tíma“.

Letur er úti um allt 

Letur, skrifstafir eða prentstafir, rittákn, stafagerðir. Stafirnir fylgja okkur frá byrjun dags til enda. Þeir klæða okkur frá innsta lagi til hins ysta: Nærföt þín eru að öllum líkindum merkt einhverju letri; hvort sem það eru stafir sem greina frá hreinsunarmöguleikum, stærð, framleiðanda eða framleiðslulandi. Í hliðarvasa og í hálsmáli útifrakkans er að öllum líkindum lítill hvítur miði með áföstum stöfum. Á ísskápnum stendur ef til vill Logik, Matsaui, Electrolux, Philips, Samsung, Whirlpool eða Frost. Ekki nema að á hverjum morgni berist heimilinu kassi af tærum mjólkurflöskum frá mjólkurbónda í nágrenninusins, þá eru matvæli innan dyra ísskápsins að öllum líkindum öll útötuð í stöfum. Strætisvagninn, tímaritin, bækurnar, skiltin, síminn; einhvers konar leturgerð Iphone‘sins segir mér að í dag sé fimmtudagurinn 29. júní. Segir mér frá því sem er að gerast á samfélagsmiðlum. Allt berst þetta í formi ákveðins leturs sem einhver hefur búið til. Letur er þó ekki eitthvað sem við hugsum almennt um frá degi til dags.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Wikimedia

Hundar tala ekki í Times New Roman

Sögu Comic Sans letursins má rekja til hunds, teiknimyndahunds sem átti heima í forritinu Microsoft Bob. „Microsoft Bob’’ var forrit sem tæknistórfyrirtækið Microsoft bjó til árið 1993. Forritinu var ætlað að hjálpa tölvunotendum að læra á nýtt stýrikerfi, Windows 95. Virkni forritsins var sú að er notendur kveiktu á því breyttist tölvuskjárinn í heimilislega stofu þar sem húsgögn og innbú gegndu hlutverki mismunandi forrita í stýrikerfinu. Ef smellt var með músinni til dæmis á blað og penna opnaðist Microsoft Word en ef smellt var á veggklukkuna opnaðist dagatalið.Leiðsögumaður um húsið var hundurinn Bob, Microsoft Bob. Skilaboð Bobs bárust notendum í talblöðrum nema hvað, letrið í blöðrunum var af gerðinni Times New Roman. „Hundar tala ekki í Times New Roman,“ sagði Vinncent Connare, forritari hjá Microsoft sem var í leturgerðarteymi fyrirtækisins. Honum blöskraði að sjá tjáningu skopmyndahunds í háfleygu Times New Roman letri og ákvað að taka málin í sínar hendur - hundurinn skyldi fá letur við sitt hæfi.

Hundurinn knái sem fékk því miður aldrei að tjá sig með Comic Sans letrinu sem var hannað honum til heiðurs.

Connare leitaði innblásturs í myndasögur á borð við Watchmen og The Dark Knight Returns og teiknaði upp, á örfáum dögum, leturgerð sem hann kallaði Comic Sans til heiðurs myndasagna en ekki í höfuðið á gríninu, kómíkinni og hlátrinum sem spunnist hefur upp af letrinu æ síðan. Connare tókst ekki að ljúka við letrið í tæka tíð svo að hundurinn Bob tjáði sig á endanum með Times new roman. Hönnunin varð þó ekki til einskis þar sem Comic Sans fékk að tilheyra letursafni stýrkikefisins Windows 95 og var þar með orðinn hluti af leturtegunum Microsoft. 

Vingjarnlegt, aðgengilegt og gleðilegt 

Markmið Connares var að búa til letur sem væri vingjarnlegt og aðgengnilegt en þó með einhvers konar gleðiblæ. Því var ekki ætlað að standast samanburð við fágaðar akademískar leturgerðir á borð við Times New Roman og Arial. Hann sá fyrir sér að letrið yrði notað á blaðsíðum fjörlegra afmæliskorta og í talblöðrum skopteikninga af dýrum og fígúrum.

Letrið varð fljótt vinsælt eftir að stýrikerfið Windows 95 kom út. Grunnskólakrakkar notuðu það þá og nota það nú í skólaverkefnum sínum. Vörumerkið Beanie Babies, vinsæl tuskudýr tíunda áratugarins, var með leturgerðinni Comic Sans. Þetta voru smákúlufylltir bangsar sem urðu álíka mikið æði og jójóin, makarena dansinn og vasadýrin. Leturgerðin var einni notuð í hinum geisivinsæla tölvuleiku Sims, sem snýst um að búa til fjölskyldulíf á tölvuskjánum; byggja hús, hugsa um heimilið, börnin, dýrin, plönturnar, götuna, efnahaginn, nágrennið, samfélagið.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Beanie Babies

Comic Sans virðist hafa hentað vel því sem tengdist börnum og sakleysi æskunnar. Þegar letrið fór hins vegar ad teygja anga sína út fyrir það aldursskeið, þegar það byrjaði að birtast á birtast á yfirráðasvæði fullorðna fólksins, á legsteinum, á hættumerkjum, lækningatækjum, mikilvægum gögnum ríkisstofnana, þá varð leturnotkunin harðlega gagnrýnd enda á hrekkleysið, hreinleiki æskunnar, engan stað meðal þeirra eldri. Þeirra eldri sem hafa orðið fyrir höfnun, áverkum og sálrænum áföllum. Grín æskunnar, Comic Sans, passar ekki inn í háalvarleika hins fullorðna lífs en hatursfull orðræða um leturgerðina, óþrjótandi meme brandarar, gif og grín um allt internetið gefur það svo sannarlega til kynna. Comic Sans er í dag alræmdasta leturgerðin enda oft kölluð „hataðasta letur allra tíma“.

Alþjóðleg bannhreyfing

Árið 1999 settu hönnuðirnir Holly og Dave Combs á laggirnar heimasíðuna „Ban Comic Sans“. Útfrá því varð til alþjóðleg hreyfing sem lýsti því yfir árið 2009 að hún væri þá, stærri og sterkari en nokkurn tímann fyrr. Dave Combs segir að letrið sé það sem kemur út ef einhver ælir á lyklaborð.

Árið 2010 ákvað körfuboltakappinn og stærsta stjarna NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum, LeBron James, að yfirgefa Cleveland Cavaliers og færa sig yfir til liðsins Miami Heat. Aðdáendur voru ekki sáttir við ákvörðun hans að um yfirgefa heimaborg sína og einna óánægðastur var eflaust eigandi Cleveland Cavaliers, Dan Gilbert, sem skrifaði langt reiðibréf um ákvörðun James sem hann birti á heimasíðu liðsins. Bréfið fór eins og eldur í sinu um netið - ekki aðeins vegna efnis þess heldur jú vegna leturgerðarinnar; Comic Sans.

Mynd með færslu
 Mynd: .
Opið reiðibréf Dan Gilberts til LeBron James birtist á vef Cleveland Cavaliers.

Þegar vísindamenn uppgötvuðu áður óséða öreind árið 2011 í Cern Í Sviss, Higgs-bóseindina eða Guðseindina eins og hún hefur einnig kölluð, varð mikið fjölmiðlafár enda eindin sögð þungamiðjan í staðallíkani eðlisfræðinnar og gæti mögulega svarað spurningum um eðli alheimsins. Vísindamenn birtu niðurstöður rannsóknarinnar í leturgerðinni Comic Sans, og eins og áður, varð allt vitlaust. Nettröllin, Twitter, samfélagsmiðlar löguðu. Valið á leturgerðinni yfirskyggði áratugalanga vinnu vísindamannanna sem gæti svarað mikilvægum spurningum heiminn. En líkt og með útlit og ásýnd mannsins, þá hefur umgjörð og útlit leturs áhrif á lestur skilaboða þeirra.

Lestin skoðaði athyglisverða sögu Comic Sans í þætti dagsins en Rakel Tómasdóttir, grafískur hönnuður, hjálpaði okkur að skilja letrið sem og leturgerð almennt.