Hans Zimmer með Jóhanni í Blade Runner 2049

01.08.2017 - 13:35
epa05248643 German composer Hans Zimmer (L) performs during a concert at the The SSE Arena, Wembley, north London, Britain, 07 April 2016.  EPA/WILL OLIVER
 Mynd: Samsett mynd  -  EPA
Þýska kvikmyndatónskáldið Hans Zimmer hefur verið ráðinn til að semja tónlist við hlið Jóhanns Jóhannssonar fyrir kvikmyndina Blade Runner 2049.

Þetta kemur fram á vefnum Slashfilm. Zimmer vann óskarsverðlaun fyrir tónlist sína úr Lion King árið 1995 og hefur samið tónlist við myndir eins og Pirates of the Caribbean, The Thin Red Line, Gladiator og The Last Samurai. Hann hefur þó vakið sérstaka athygli undanfarin ár fyrir samstarf sitt við leikstjórann Christopher Nolan í Batman-þríleiknum, Inception, Interstellar, og nú síðast í Dunkirk þar sem tónlistin spilar stóra rullu. Hann er þekktur fyrir að blanda saman sinfónínskum útsetningum við rafhljóð.

Haft er eftir leikstjóranum Denis Villeneuve að Jóhann Jóhannsson muni engu að síður semja aðalstef myndarinnar, en vegna umfangs verkefnisins hafi hann talið nauðsynlegt að fá önnur tónskáld til að leggja verkinu lið, en auk Zimmers mun breska kvikmyndatónskáldið Benjamin Wallfisch koma að tónlistinni. Þetta er víst ekki óvanalegt með stórmyndir sem þessar en nýlega var tónskáldið Danny Elfman fenginn til að hjálpa Junkie XL að klára tónlistina við ofurhetjumyndina Justice League. 

Blade Runner 2049 er framhald Blade Runner sem Ridley Scott leikstýrði árið 1982, byggð á bók eftir vísindaskáldsagnahöfundinn Philip K. Dick. Tónlistin úr upprunlegu myndinni eftir gríska tónskáldið Vangelis þykir með því allra besta sem samið hefur verið í kvikmyndatónlist svo miklar væntingar eru gerðar til þeirra Jóhanns, Zimmers og Wallfischs. Myndin verður frumsýnd þriðja október en Ryan Gosling fer með aðahlutverk í henni.