Hamingjusamt fólk í reykmekki listarinnar

27.06.2017 - 13:15
Um margt óvenjuleg sýning opnaði laugardaginn var í Nýlistasafninu í Marshall húsinu úti á Granda. Þar stendur til að reykja myndlistina í sérsmíðuðum vatnspípum með vægu og bragðgóðu tóbaki. Sýningin heitir Happy People og er hugarfóstur Arnars Ásgeirssonar. 

„Þetta er alla vega „experiment.“ Við erum að gera tilraunir. Ég var beðinn um að stýra sýningu en það hef ég ekki gert áður. Sem myndlistarmaður ákvað ég því að búa einhvern veginn til verk utan um myndlistina á sýningunni,“ segir Arnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ýr Einarsdóttir  -  Nýlistasafnið

„Ég lít á þessa sýningu sem mitt eigið verk líka, en ég er hvorki reykingarmaður né sýningarstjóri, þannig að þetta er allt nýtt fyrir mér. Við erum semsagt að fara að reykja myndlistarverk, skúlptúra.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ýr Einarsdóttir  -  Nýlistasafnið

Arna segist hafa fengið hugmyndina að reyktri list þegar hann var í námi í Amsterdam. „Þá gerði ég verk þar sem ég setti lítinn skúlptúr eftir Ásmund Sveinsson inn í pípu og sýndi og hugmyndin hefur eiginlega þróast þaðan.“ Nafn sýningarinnar, Happy People, kom líka frá Amsterdam. „Ég hjólaði á hverjum degi fram hjá reykstofu með þessu nafni þarna úti og mér fannst nafnið svo skemmtilegt að ég brosti alltaf. Síðan er þetta auðvitað hópur af hamingjusömu fólki sem á verk á sýningunni,“ segir Arnar.

Meira en tuttugu listamenn eiga verk á sýningunni og er um helmingur þeirra erlendur. „Ég hef nú hitt flesta, eitthvað fólk sem ég hef rekist á hér og þar. Reyndi líka að velja listamenn sem mér fannst vera með „reykjanleg verk“, ef það er hægt að segja það.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ýr Einarsdóttir  -  Nýlistasafnið

Sýningarstjóranum er umhugað um að virkja myndlistina með aðeins beinni hætti en venjan er, umfram það bara að horfa á hana. „Þarna er áhorfandinn aðeins meiri þátttakandi en venjulega. Með reyknum inn í pípunni breytir þú umhverfinu í kringum verkin. ég er að vinna með mismunandi aðferðir til að njóta verkanna og ég held það geti komið alls konar óvænt út úr því.“

Á opnuninni voru reykt verk eftir Eggert Pétursson, Hrein Friðfinnsson, Hrafnhildi Helgadóttur, hina írönsku Mehraneh Atashi og kúbverska listamanninn Loidys Carnero, en þeim verður síðan skipt þar sem einungis fimm pípur eru á sýningunni. Arnar segir það mismjafnt hversu vel verkin þola gufuna og í einhverjum tilvikum geti gestir hreinlega andað að sér listinni. „Sum munu bara leysast upp og þú átt eftir að anda þeim að þér!“

Happy People var opnuð 24. júní en nánari upplýsingar má finna á vef Nýlistasafnsins. Á eftir viðtalinu hér að ofan og undir því (í gegnum vegg) hljóma brot úr reyk- og hljóðverki Darra Lorenzen. 

Myndir birtar með leyfi Nýlistasafnsins. Færslan hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi