Hamfarastormurinn Debbie genginn á land

28.03.2017 - 05:39
epa05873956 A handout photo made available by the National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA) showing Japan Meteorological Agency's Himawari-8 satellite capture of a true-color image of Tropical Cyclone Debbie closing in on the
 Mynd: EPA  -  NOAA
Fellibylurinn Debbie er genginn á land í Queensland í Norðaustur-Ástralíu og hamast þar á öllu sem fyrir verður af ógnarkrafti. Debbie er fjórða stigs fellibylur en enn er talin hætta á að hann sæki enn frekar í sig veðrið og falli í flokk fimmta stigs fellibylja. Vindhraði hefur náð allt að 75 metrum á sekúndu, þar sem lætin eru mest. Gríðarlegt úrhelli fylgir fárviðrinu. Í bænum Prosperine mældist yfir 200 millimetra úrkoma á einni klukkustund þegar Debbie fór þar yfir.

Ofviðrið þokast nú í suðvesturátt, inn í land. Gert er ráð fyrir miklu tjóni hvar sem hann mun fara yfir, annars vegar af völdum ofsaroksins en einnig og ekki síður vegna steypiregnsins sem því fylgir og flóðanna sem það gæti valdið. Spáð er á bilinu 200 - 400 mm sólarhringsúrkomu á stórum svæðum.

Samtök ástralska tryggingafélaga hafa flokkað Debbie sem náttúruhamfarir og búa sig undir þúsundir tjónatilkynninga á næstu dögum og vikum. Vitað er um einn mann sem slasaðist alvarlega þegar veggur hrundi yfir hann í veðurofsanum en engar fregnir hafa borist af manntjóni. Tugum þúsunda var gert að yfirgefa heimili sín og koma sér í öruggt skjól áður en veðrahamurinn skall á. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV