Halda vinnunni en fá engin laun

12.05.2017 - 05:45
This photo provided by Jake Strang shows tents and a portable toilet set up for attendees for the Fyre Festival, Friday, April 28, 2017 in the Exuma islands, Bahamas. Organizers of the much-hyped music festival in the Bahamas canceled the weekend event at
 Mynd: AP
Starfsmenn tónlistarhátíðarinnar Fyre Festival fá ekki greidd laun fyrir vinnu sína. Stjórnandi hátíðarinnar býður þeim þó að halda störfum sínum og hjálpa til við næstu hátíð. Þetta kemur fram í hljóðupptöku úr símafundi stjórnandans með starfsmönnum.

Fréttamiðillinn Vice komst yfir upptökuna og greinir frá henni á heimasíðu sinni. Þar heyrist Billy McFarland, frumkvöðull og stofnandi hátíðarinnar, segja að enginn verði rekinn. Hann vilji bara láta alla vita að þeir fái engin laun fyrir vinnu sína að svo stöddu. Hann segist átta sig á því að þetta séu ekki ákjósanlegar aðstæður, en hann vilji ekki valda neinum vandræðum.

Starfsmenn hans voru ekki á eitt sáttir. Þeir mótmæltu því harðlega að þeir héldu störfum sínum launalaust og neyddust því til að segja sjálfir upp. Það myndi þýða að þeir ættu ekki rétt á atvinnuleysisbótum. McFarland sagðist ekki hafa áttað sig á því að þær virkuðu þannig. 

Fyre hátíðin átti að vera hin glæsilegasta. Ekkert var til sparað í auglýsingum, enda var hátíðin haldin á eyju í Bahama-eyjaklasanum sem var leigð sérstaklega fyrir viðburðinn. Raunveruleikinn var ekki svipaður því sem lofað var og enduðu gestir, sem margir höfðu borgað hundruð þúsunda fyrir aðgang, á því að vilja fara heim strax við komuna. Fjölmargir hafa kært McFarland og rapparann Ja Rule, sem tók þátt í að skipuleggja hátíðina. 

McFarland var strax harðákveðinn í því að efna til nýrrar hátíðar að ári. Hún verður þó ekki haldin á Bahama-eyjum, heldur á einkaströnd í Bandasríkjunum. Hann vill fá starfsmennina sem aðstoðuðu við að gera hátíðina í ár að raunveruleika til þess að halda áfram störfum. Komið sé að því að undirbúa miðasölu á næstu hátíð.