Hagar lækka um 7,24%

08.08.2017 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutabréf í Högum lækkuðu um 7,24% í viðskiptum dagsins. Lækkunina má að öllum líkindum rekja til afkomuviðvörunar sem félagiðs sendi frá sér fyrir helgi.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu í tilkynningu til Kauphallarinnar að gera mætti ráð fyrir að EBITDA í mars til ágúst verði um 20 prósent lægri en á sama tíma í fyrra. Það var rakið til sölusamdráttar vegna gengisþróunar og breyttrar markaðsstöðu ásamt kostnaðarauka. Þetta er önnur afkomuviðvörunin sem Hagar senda frá sér á skömmum tíma.

Mikil breyting hefur orðið á verðmæti fyrirtækisins síðustu mánuði. Hlutabréf seldust á genginu 50 til 55 frá því í október í fyrra fram í mars. Þá fór hlutabréfaverð niður í rétt rúma 45 áður en það hækkaði aftur í maí eftir að tilkynnt var um fyrirhuguð kaup Haga á Olís. Þá voru bréf seld á genginu 55. Frá því í júní hefur verðmæti hlutabréfa í Högum hrunið, farið úr 55 í 36,5 við lokum markaða. Það er lækkun um tæpan þriðjung á tveimur mánuðum.

Hagar eru langt því frá eina félagið sem lækkaði því dagurinn var rauður í Kauphöllinni. Gengi bréfa í Sjóvá lækkaði um 2,45%, Skeljungur lækkaði um 2,19% og Marel um 1,34%. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,48%.