Hafverndarsvæði geta hjálpað loftslaginu

06.06.2017 - 05:44
epa02551811 A general view of the Iranian South pars quarter one (SPQ1) gas platform in the Persian gulf waters on the edge of the Qatar territorial waters on 26 January 2011, near the southern Iranian port of Assalouyeh, Iran. Iranian Oil Minister Masoud
 Mynd: EPA
Hafsvæði sem njóta verndar fyrir fiskveiðum, olíuborun og siglingum farþegaskipa eru ekki bara mikilvæg fyrir viðhald fiskistofna og annars lífríkis hafsins, heldur gætu þau einnig skipt sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við York-háskóla, sem telja mikilvægt að fjölga slíkum svæðum.

Í grein þar sem farið er yfir niðurstöðu rannsóknarinnar kemur fram að slík hafsvæði geti varið strandlengjur sem séu viðkvæmar fyrir fellibyljum og hækkandi sjávarmáli. Þá geti þau dregið úr skaðlegum áhrifum af súrnun sjávar, sem drepur meðal annars kóralrif, og aukið upptöku og varðveislu koltvísýrings, ekki síst í votlendi við strendur, og þannig hjálpað til við að hægja á loftslagsbreytingum.

„Okkur varð fljótt ljóst að hafverndarsvæði geta veitt lífríki sjávar og mönnum nauðsynlega mótstöðu gegn loftslagsbreytingum og að minnsta kosti hægt á þeim,“ segir Beth O'Leary, einn af meðhöfundum greinarinnar og vísindamaður við York-háskóla. Slík svæði séu ódýr og tiltölulega einfaldur kostur í baráttunni.

Aðeins 3,5% af höfum veraldar njóta verndar og ekki nema 1,6% fullrar verndar fyrir fiskveiðum og annarri auðlindanýtingu. Til stendur að hækka hlutfallið í 10% fyrir árið 2020 og í 30% fyrir árið 2030.

Sagt er frá rannsókninni í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV