Hafnar kröfu Vegagerðar um að borgin borgi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  Sundabraut
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir þung rök hníga að því að Sundabraut verði ótæk umhverfislega og síðri umferðarlega og skipulega ef sú leið verður farin sem Vegagerðin vill heldur en ef farin verður leiðin sem borgin leggur til. Þetta segir Dagur í bréfi til Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Hann segir Vegagerðina ekki hafa rökstutt með nýju kostnaðarmati að leið borgarinnar yrði mun dýrari en leið Vegagerðarinnar.

Tilefnið er bréf vegamálastjóra frá í vor þar sem hann sagði það vera mat Vegagerðarinnar að borgin þyrfti að greiða umframkostnað ef Sundabraut yrði lögð eftir ytri leið eins og borgin vill en ekki innri eins og Vegagerðin vill.

Vegagerðin hefur lagt til að farin verði innri leið við gerð Sundabrautar þar sem það sé ódýrasta leiðin. Borgin vill fara ytri leið og hefur unnið að skipulagningu byggðar á landsvæði sem leggja yrði undir Sundabraut yrði innri leiðin fyrir valinu. Vegagerðin telur því að borgin yrði að standa straum af umframkostnaði og Jón Gunnarsson samgönguráðherra tók undir það sjónarmið í vor.

Verði greidd með veggjöldum

Dagur hafnar þessu. Hann vísar meðal annars til þess að alla tíð hafi verið gengið út frá því að Sundabraut yrði lögð í einkaframkvæmd. Hún yrði þá fjármögnuð með veggjöldum. Að auki hafi Reykjavíkurborg engin gögn undir höndum um að Vegagerðin hafi formlega lagt til að farin yrði innri leið við gerð Sundabrautar. Þetta segir Dagur borgarstjóri í bréfi til Hreins vegamálastjóra. Hann segir að eftir engin gögn séu í skjalasafni borgarinnar um að Vegagerðin hafi nokkru sinni gert innri leið að formlegri tillögu sinni til borgarinnar. Því hafi borgin ekki talið sér skylt að bregðast formlega við skoðun Vegagerðarinnar.

Dagur segir í bréfi sínu til Hreins að borgin hafi haldið sínum sjónarmiðum á lofti við Vegagerðina gegnum árin. Þessa sjáist merki í aðalskipulagi Reykjavíkur og skipulagsáætlunum. Hann segir líka að innri leiðinni hafi verið hafnað við mat á umhverfisáhrifum árið 2004 vegna óvissu um umhverfisáhrif brúarlausna og landfyllinga á lífríki og sjávarstrauma. Að auki meti Reykjavíkurborg stöðuna þannig að ytri leiðin verði betri samgöngutenging en innri leiðin, sérstaklega með hliðsjón af dreifingu umferðarálags. Þar við bætist að mati borgarstjóra að ytri leiðin tengi miðborgina betur við íbúa austur- og norðursvæða höfuðborgarsvæðisins og fjarlægari landhluta, létti á umferð um Ártúnsbrekku og tengi Grafarvog betur við miðborgina.

Fengu Mannvit til að vinna samantekt

Með bréfi borgarstjóra til vegamálastjóra fylgdi samantekt Mannvits á heimildum og fyrri hugmyndum um þverun Kleppsvíkur fyrir Reykjavíkurborg. Þar segir að aðstæður í Kleppsvík séu um margt heppilegar fyrir botngöng og mikilvægt að skoða þau markvisst sem raunhæfan valkost. Þá þurfi að gera uppfærða kostnaðaráætlun ef svara á því hversu mikið botngöng í Kleppsvík myndu kosta. Þar segir að fyrri kostnaðarááætlanir séu komnar til ára sinna og að tækniframfarir og breyttir staðlar kunni að hafa leitt til þess að minni munur sé á misjöfnum leiðum við lagningu Sundabrautar en áðar.

Í samantektinni er vakin athygli á því að Faxaflóahafnir ráðgeri að lengja Vogabakka til norðurs. Því skipti miklu máli að botngöng verði byggð áður en kemur til lengingar Vogabakka, ef ákveðið verður að gera botngöng. Það sé vegna þess að kostnaður við gerð botnganganna gæti stóraukist ef hún yrði eftir lengingu hafnarinnar.