Hafa náð tökum á sinubrunanum

11.05.2017 - 20:02
Slökkviliðsmenn sem notið hafa aðstoðar bænda hafa náð tökum á miklum sinueldi sem brunnið hefur í Eyja- og Miklaholtshreppi frá því síðdegis. Eldurinn hefur logað á svæði sem nær yfir tugi og jafnvel hundruð hektara að sögn Bjarna Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð. Slökkviliðsmenn frá Borgarbyggð, Stykkishólmi og Grundarfirði hafa barist við eldinn. Það hafa líka bændur gert sem notuðu haugsugur sínar til að dreifa vatni og bleyta jörðina.

Þorsteinn Sigurðsson, íbúi á Holti við Vegamót, sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að eldurinn væri töluverður en staðsetningin væri ekki sú versta, þar sem svæðið þar sem eldurinn brennur afmarkast af vegum og skurðum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV