Hættir hjá DV í kjölfar eigendaskipta

12.01.2015 - 10:37
Mynd með færslu
Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður og ritstjórnarfulltrúi á DV hefur sagt upp störfum hjá blaðinu. Ingi Freyr staðfesti þetta við fréttastofu, en segir óvíst hvað taki við.

Aðspurður um ástæðu þess að hann segi skilið við DV, segir hann að í ljósi breytts eignarhalds á fjölmiðlinum, hafi hann talið þetta heppilegan tímapunkt til að segja upp störfum. Hann tekur fram að það gerðist ekkert eitt sem varð til þess að hann tók þessa ákvörðun, engin uppákoma eða inngrip í hans störf. „Ég hefði allt eins getað tekið þessa ákvörðun fyrir viku eða tveimur á sömu forsendum,“ segir hann.

Miklar sviptingar hafa orðið á DV undanfarið. Verðlaunablaðamennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon sögðu báðir upp störfum hjá fjölmiðlinum í síðustu viku, eftir ritstjórarskipti, en Hallgrími Thorsteinssyni var sagt upp og Eggert Skúlason og Kolbrún Bergþórsdóttir ráðin ritstjórar í hans stað.

Ingi Freyr hefur nokkrum sinnum verið tilnefndur til blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands vegna skrifa sinna fyrir DV.