Hætt við að láta slátra fé sem fór yfir Blöndu

12.09.2017 - 15:17
Suðureyri súgandafjörður Suðureyri súgandafjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Matvælastofnun hefur endurskoðað ákvörðun sína um að láta slátra öllu fé sem fór yfir sjúkdómavarnarlínu Blöndu í sumar. Féð fær að lifa, en dýralæknir hjá Matvælastofnun segir brýnt að taka ákvörðun um afdrif varnarlínunnar sem fyrst, enda sé ítrekað verið að brjóta lög.

Líkt og fram kom í fréttum í gær þá var bændum í Austur-Húnavatnssýslu tilkynnt að hátt í fjögur hundruð fjár, sem fór yfir Blöndu í sumar, yrði slátrað. Áin er í flokki varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma og skilur að Skagahólf og Húnahólf. Litlar varnir eru við ána, en eftir að Blanda var virkjuð er hún þurr á stórum kafla og auðvelt fyrir fé að komast yfir. Þar að auki skortir girðingar. Undanfarna áratugi hefur því verið litið framhjá reglunum, þannig að fé úr fyrstu göngum megi lifa þrátt fyrir að hafa farið yfir, en til stóð að taka harðar á málinu í ár. 

„Verður einhvern tímann að stoppa“

„Þessi nýlegu riðutilfelli í Skagafirði urðu til þess að við fórum að sjá að þetta myndi ekki ganga lengur. Svo verður einhvern tímann að stoppa svona lögleysu. Maður verður að fylgja öllum lögum og reglum þannig að það sé samræmi, þannig að einn fái ekki að gera eitthvað og aðrir ekki,“ segir Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir Matvælastofnunar á Norðvesturlandi. Bætir hann við að samkvæmt lögum fái bændur bætur ef þarf að slátra fé vegna þessa, sem nemi tæpum átta þúsund krónum fyrir hvern skrokk. 

Hann segist hafa látið bændur vita af þessari breytingu í fyrra. Í millitíðinni skipaði Atvinnuvegaráðuneytið starfshóp til að fjalla um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma í landinu og gaf Jón Kolbeinn nefndinni sitt álit. „Það kom skýrt fram af minni hálfu að Blanda væri ekki virk sem varnarlína og ég benti til dæmis á það að það þyrfti að setja ristarhlið á sitt hvora Blöndubrúna, svo þyrfti að girða meðfram Blöndu því hún væri vatnslítil og einnig þyrfti að auka vatnsmagnið í Blöndu,“ segir Jón Kolbeinn.

Hins vegar hafi fjármagn til viðhalds verið af skornum skammti og því hafi hann ekki séð annan kost í stöðunni en að fjarlægja varnarlínuna og sameina hólfin tvö. „Svo skilaði nefndin skýrslu í lok ágúst og lagði þar til að Blöndu yrði viðhaldið sem varnarlínu,“ segir Jón. 

Þarf að taka ákvörðun um afdrif línunnar

Aðspurður segir Jón Kolbeinn ómögulegt að koma í veg fyrir að fé fari yfir varnarlínuna, nema komið sé upp girðingum. Það sé þó ábyrgð ráðuneytisins að úthluta fjármagni til viðhalds. „Það þarf bara að taka ákvörðun um hvort það eigi að viðhalda þessari varnarlínu eða ekki og ef það á að viðhalda henni þá þarf að koma mikið fjármagn í það,“ segir hann. 

Enn liggur ekki fyrri ákvörðun ráðuneytisins um afdrif varnarlínunnar og því ákvað Matvælastofnun í gær, eftir mikil mótmæli frá bændum á svæðinu, að endurskoða ákvörðun sína. Ekki verður gerð krafa um að slátra fénu. „Við ætlum að láta það óátalið, eins og verið hefur undanfarna áratugi, útaf því að það liggur ekki fyrir ákvörðun um afdrif línunnar. Þess vegna töldum við það ótímabært að taka ákvörðun á þessum tímapunkti um að láta slátra fé, einkum ef niðurstaðan verður sú sem Matvælastofnun hefur áður lagt til, að fella Blöndu brott sem varnarlínu,“ segir Jón Kolbeinn. 

Vonast hann til að ráðuneytið hafi tekið afstöðu í málinu fyrir næsta haust. „Það er eiginlega óþolandi að bjóða bændum upp á þetta að fá engin svör frá ráðuneytinu. Ég veit að þeir hafa verið að ýta á ráðuneytið í allt sumar að fá svör en þeir hafa ekki fengið þau. Og það er ekki við Matvælastofnun að sakast í þeim efnum,“ segir Jón Kolbeinn. 

 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV