Hætt við að hætta við Paint

25.07.2017 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Nína Richter  -  RÚV
Tölvufyrirtækið Microsoft staðfesti í yfirlýsingu í morgun að hætt yrði við fyrirhugaða áætlun um að hætta með myndvinnsluforritið Paint, en forritið hefur verið einskonar staðalbúnaður í stýrikerfinu undanfarin 32 ár og hefur fylgt Windows frá fyrstu útgáfu. Gríðarleg viðbrögð aðdáenda forritsins við fyrirhuguðum endalokum urðu til þess að breytingin var afturkölluð.

Á mánudaginn bárust þær fregnir úr herbúðum Microsoft að ný uppfærsla stýrikerfisins, svokölluð Fall Creators Update fyrir Windows 10, myndi marka endalok Paint forritsins. 

Paint hefur fylgt Windows frá árinu 1985 en forritið hefur í seinni tíð öðlast einskonar költ-stöðu. Forritið þykir sérstaklega einfalt og notendavænt, enda hefur það breyst afskaplega lítið í seinni tíð og minnir því marga notendur á árdaga Windows notendaviðmótsins sem flestir þekkja í dag.

Mynd með færslu
 Mynd: Nína Richter  -  RÚV
Viðmót Paint er mjög einfalt

Á forritið sér fjölmarga aðdáendur víða um heim, en myndir sem gerðar eru með Paint hafa jafnan yfir sér hrátt og einkennandi yfirbragð.

Einnig kemur fram að Paint verði ekki áfram hluti af Windows 10 en hægt verði að hlaða því niður án endurgjalds í Windows Store. Arftaki Paint, Paint 3D mun hinsvegar taka við kyndlinum og fylgja nýju uppfærslunni.