Guðni segir kosningabaráttuna hafa gert gott

19.03.2017 - 19:31
Guðni Bergsson hefur verið rúman mánuð í starfi sem formaður KSÍ. Hann segir fyrstu vikurnar hafa verið áhugaverðar og að formannsslagurinn hafi gert fótboltahreyfingunni gott. Guðni var kjörinn formaður 11. febrúar síðastliðinn og tók nánast samstundis til starfa.

 

„Það er fullt af hlutum sem maður þarf að sitja sig inn í og ég hef þurft að fara á fundi líka erlendis bæði með FIFA og formönnum hinna Norðurlandanna þannig þetta er búið að vera mjög athyglisvert og kröftug byrjun,“ sagði Guðni í viðtali við RÚV.

Árið 2016 var gríðarlega gott hjá KSÍ, bæði þegar horft er til árangurs landsliða Íslands og ekki síst fordæmalauss fjárstreymis í kjölfar árangursins.

„Ég held í raun og veru að við viljum bara halda áfram á þessari vegferð og reyna að bæta okkur enn frekar og við vitum það að starfið fer auðvitað fyrst og fremst fram í öllum aðildarfélögunum sem eru vel yfir sjötíu.“

Kosningabaráttan jákvæð
Guðni lagði Björn Einarsson í baráttunni um formannsstólinn og var kosningabaráttan býsna hörð. Guðni segir það á endanum hafa verið jákvætt fyrir hreyfinguna.

„Ég held í sjálfu sér að þetta hafi verið heilbrigð tímamót fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Þarna var kosningabarátta og menn voru að velta fyrir sér leiðinni fram á við og ég held að þetta hafi bara verið af hinu góða og við horfum bara fram á veginn. Ég fyrst og fremst sem formaður KSÍ og Björn örugglega verandi formaður Víkings,“ sagði Guðni að lokum.

 

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður