Guðmundur: Mikilvægt að halda áfram

30.08.2016 - 14:46
Ulrik Wilbek hætti störfum sem íþróttastjórnandi danska handboltasambandsins í morgun. Starfslokin koma í kjölfar mikils óróa í kringum landsliðið. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari danska landsliðsins hitti Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson í dag og segir hann viðbrögðin blendin.

„Þær komu mér mjög á óvart þessar fréttir sem ég fékk á föstudag um einhverja fundi og slíkt og þetta hefur verið hálfgerður tilfinningarússíbani eftir að hafa unnið gull með liðið. En síðan komu þarna ákveðnar fréttir fram og víða verið um þetta skrifað. Það er svolítið skrítið að standa hálfpartinn utan við þetta því ég var í raun og veru ekki staddur neina fundi sem um er rætt og get í sjálfu sér ekki mikið sagt um innihald þeirra raunverulega. En nú er komin ákveðin niðurstaða í þetta mál og þá er bara mikilvægt að huga að framtíðinni og fara nú að njóta þess virkilega að hafa unnið þetta Ólympíugull.“

Ulrik Wilbek segir í samtali við danska fjölmiðla að Guðmundur fái nú vinnufrið eftir afsögn hans. Lítur Guðmundur á þetta þannig? „Ég veit nú ekki alveg hvað hann á við með því en mér finnst nú bara mikilvægt að halda áfram og einbeita sér að komandi verkefnum. Það er númer eitt.“

 

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður