Grunur um atkvæðakaup í ÓL-kosningum

14.09.2017 - 04:18
epa05101710 (FILE) A file picture dated 14 August 2009 of Lamine Diack, President of the International Athletics Federation (IAAF), during a press conference on a joint meeting of IOC and IAAF in Berlin, Germany. Former IAAF president Lamine Diack was
Lamine Diack, fyrrum forseti IAAF.  Mynd: EPA  -  DPA FILE
Um svipað leyti og fregnir bárust af því að París og Los Angeles verði gestgjafar Ólympíuleikanna árið 2024 og 2028 komu fram nýjar ásakanir um atkvæðakaup í vali fyrir Ólympíuleikana í Ríó í fyrra og Tókýó árið 2020. Gögn sem breska blaðið Guardian fékk að líta í sýna að sonur áhrifamanns innan Alþjóðaólympíunefndarinnar hafi fjárfest í dýrum armbandsúrum og skartgripum örfáum dögum eftir að kosið var um gestgjafa ÓL 2016 og 2020.

Pape Massata Diack, sonur Lamine Diack fyrrum forseta Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, fór mikinn í rándýrum frönskum verslunum eftir atkvæðagreiðslurnar þar sem Ríó og Tókýó voru valdar. Þar eyddi hann hundruð þúsundum evra í skartgripi. Skrifstofa ríkissaksóknara í Brasilíu dregur þá ályktun frá eyðslu Diacks að faðir hans hafi mögulega fengið greitt fyrir að beina mönnum í ákveðna átt í atkvæðagreiðslunni fyrir ÓL 2016 og 2020. Brasilíski ríkissaksóknarinn safnar gögnum fyrir ríkissaksóknara í Frakklandi sem heldur utan um málið.

Guardian greinir frá því að í fyrra hafi blaðið komið upp um háa greiðslu úr kosningasjóði Tókýó til fyrirtækis sem tengdist Massata Diack. Tvær millifærslur upp á samanlagt 1,7 milljón evra, jafnvirði rúmlega 200 milljóna króna, voru lagðar á reikning fyrirtækisins, skömmu fyrir og eftir atkvæðagreiðslu Alþjóðaólympíusambandsins í september 2013. Nokkrum vikum síðar greiddi fyrirtækið fyrir skartgripi og aðrar munaðarvörur fyrir Massata Diack.

Nú er komið í ljós að svipuð atburðarrás varð þegar Ríó var valin árið 2009. Sama dag og atkvæði voru greidd um gestgjafana 2016, greiddu fyrirtæki tengd Massata Diack háar fjárhæðir fyrir munaðarvörur í frönskum og katörskum verslunum. Þar á meðal er millifærsla frá fyrirtæki tengdu honum til franskrar skartgripaverslunar daginn sem Río var valin.

Diack hefur ekki svarað fyrir þessar nýju ásakanir, en fyrr í mánuðinum sagði hann ásakanir gegn sér stærstu lygi íþróttasögunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV