Grunaðir í sakamálum hafa líka réttindi

„Ég tel að þarna hafi verið tekin röng ákvörðun,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, doktorsnemi og forstöðumaður rannsóknarseturs í afbrotafræði í New York, um myndbirtingu lögreglunnar af 15 ára dreng vegna rannsóknar á kynferðisbroti í Breiðholtslaug. Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir birtinguna. Pilturinn var auðþekktur á myndinni og augljóst að hann var ungur að árum. Margrét segir að þegar fólk hugi að réttindum grunaðra í sakamálum eigi það ekki þar með við að þolendur skipti ekki máli.

Margrét tekur fram að lögreglan hafi verið að leggja meiri áherslu á kynferðisbrot og unnið gott starf í þeim málaflokki. Hún segist viss um að ákvörðun um fyrrnefnda myndbirtingu hefði ekki verið tekin nema vegna alvarleika brotsins sem var meðal annars lýst í fjölmiðlum. Barnaverndarstofa hefur fundað með lögregluyfirvöldum vegna þessa. Margrét gagnrýnir lögregluna fyrir birtinguna og bendir á að grunaðir, ákærðir og jafnvel sakfelldir einstaklingar hafi ýmis réttindi og mannréttindi sem megi ekki virða að vettugi.

Allir geta verið grunaðir um glæp
„Það var algjörlega skýrt, þegar þessi mynd birtist, að þarna væri barn og þess vegna sérstaklega viðkvæmur einstaklingur. Það er líka mikilvægt að átta sig á því að þegar myndin var birt, af þessum 15 ára dreng sem var grunaður um glæp, þá hafði ekki átt sér stað nein rannsókn. Hann er ekki ákærður og auðvitað ekki sakfelldur. Það er mikilvægt að fólk hugsi, eða hugleiði, að það geta allir saklausir lent í því að vera grunaður um glæpi.“

Lögregla hefur leyfi til myndbirtinga í tengslum við glæpi, séu almannahagsmunir í húfi. Það þarf að meta hverju sinni. „Ég tel að þarna hafi verið tekin röng ákvörðun. Líka þessi umræða um fólk sem er að gagnrýna þessi vinnubrögð lögreglu, sé á einhvern hátt ekki að sýna þolendum kynferðisbrota stuðning - þetta útilokar ekki hvort annað.“

Rætt var við Margréti Valdimarsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi