„Greiddi ekki félagsgjöld fyrir neinn“

11.07.2017 - 09:00
Ólafur Arnarson segir að ekkert eitt hafi gert útslagið þannig að hann ákvað að hætta formennsku í Neytendasamtökunum. Hann hafi þurft að sitja undir alvarlegum ásökunum stjórnar samtakanna sem ekki eigi við rök að styðjast. Allar tilraunir hans til að koma á sáttum hafi verið sópað út af borðinu og enginn vilji hafi verið til sátta.

Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna sagði í gær að samtökin ætli ekki að tjá sig um yfirlýsingu Ólafs frá því í gær og ítrekaði yfirlýsingar samtakanna og að stjórnin standi við hvert orð. 

Enginn vilji verið til sátta

„Það er gjarnan sagt að sjaldan veldur einn þá tveir deila og eflaust get ég horft til baka og séð einhver mistök sem ég hef gert,“ segir Ólafur. „Ég hef hins vegar af heilum hug reynt að ná sáttum þarna. Ég hef lagt til að menn setji hagsmuni samtakanna og neytenda í forgang og láti í raun og veru það sem liðið er fyrir aftan sig og horfi fram á við. Þetta hefur fólk ekki verið tilbúnir til að gera. Ég hef líka sagt að í þessari stöðu þá tel ég að öll stjórnin sé í raun og veru búin að glata trúnaði félagsmanna, þá á öll stjórnin að segja af sér og fá neyðarstjórn þriggja manna til að stýra samtökunum fram að þingi sem yrði boðað eins fljótt og mögulegt er og þar fengju félagsmenn að ákveða hvert verður framhaldið og hverjir stýra því framhaldi. Þetta var stjórnin ekki tilbúin til að gera og það get ég ekki túlkað öðruvísi en að stjórnarmenn séu logandi hræddir við að mæta félagsmönnum."

Vísar ásökunum á bug

Ólafur hefur verið sakaður um að hafa smalað nýjum félagsmönnum í samtökin fyrir þingið í fyrra þegar hann var kjörinn formaður og greitt fyrir þá félagsgjöldin. Hann vísaði þessu alfarið á bug í Morgunútvarpinu í morgun. 

„Ég hafði samband við stuðningsmenn sem ég átti í samfélaginu og bað þá um að ganga í samtökin til að styðja mig. Ég bauð þeim upp á, ef þeir kysu, að þá gæti ég séð um að skrá þá bæði á þingið og í samtökin og ef þeir vildu þá mættu þeir leggja inn á mig og ég gæti borgað félagsgjaldið sem þeir voru þá þegar búnir að greiða mér. Það var nú einfaldlega praktískt atriði því mér var ekki kunnugt um að það yrðu posar á þinginu sem er náttúrlega mun meira hagræði en áður þegar fólk hefur þurft að borga með reiðufé.“

En af hverju þessi millileikur, af hverju átti fólk að leggja inn á þig? „Það eru bara þægindi fyrir fólkið. Ég er að biðja fólk um að koma að styðja mig og í stað þess að fólk þurfi að setja sig í samband við Neytendasamtökin, skrá sig og sjá um greiðslur þá gat það bara lagt inn á mig. Ég hef áður sagt það og stend við það: Ég greiddi ekki félagsgjöld fyrir einn einasta mann úr eigin vasa.“

Og enginn á þínum vegum kom að því að borga félagsgjöld fyrir eitthvað fólk? Nei. „Mér er ekki kunnugt um annað en að þeir sem báðu mig um að annast þetta fyrir sig að þeir hafi greitt þetta sjálfir. 

Þú vísar því þá algjörlega á bug að þú hafir smalað með óeðlilegum hætti á fundinum vegna þess að það er búið að fullyrða þetta ítrekað af þeim sem þú ert að deila við? „Já þeir eru búnir að fullyrða svo margt og allt á það nú sammerkt að þegar farið er aðeins að grafast fyrir um það að það eru yfirleitt skrifleg gögn sem sýna fram á ásakanirnar eru rangar. Ég var ekki sá eini sem smalaði á þetta þing. Það voru þrír frambjóðendur sem smöluðu. Mér gekk hins vegar mun betur enda var ég kannski með skýrustu sýnina um það hvert ég vildi fara með samtökin.“

Hlusta má á viðtalið við Ólaf í spilaranum hér fyrir ofan.