Göngukonan fundin heil á húfi

27.07.2017 - 01:12
Mynd með færslu
Mikil þoka var á Seyðisfirði í kvöld. Það varð til þess að konan villtist af leið og rataði ekki til baka, auk þess sem þokan gerði leitarmönnum mun erfiðara fyrir en ella.  Mynd: Landsbjörg
Mynd með færslu
Um 50 manns tóku þátt í leitinni fyrir austan  Mynd: Landsbjörg
Mynd með færslu
Ökklabrotinn maður var sóttur um torfæran veg nálægt Arnarstapa á Snæfellsnesi  Mynd: Landsbjörg
Mynd með færslu
Notað var sexhjól til að koma hinum ökklabrotna af slysstað og í sjúkrabíl  Mynd: Landsbjörg
Um hálftólf í kvöld fundu björgunarsveitir á Austurlandi konu sem villtist í þoku í brattlendi við sunnanverðan Seyðisfjörð. Guðjón Már Jónsson hjá aðgerðastjórn Landsbjargar segir konuna hafa verið ómeidda og treysti hún sér til að ganga sjálf niður í fylgd leitarfólks. Komu þau til byggða á öðrum tímanum í nótt. Um 50 manns víðsvegar að af Austurlandi tóku þátt í leitinni. Björgunarsveitir á Snæfellsnesi aðstoðuðu ökklabrotinn göngumann í kvöld og svipast var um eftir manni á Fimmvörðuhálsi.

Guðjón segir hjálparbeiðni hafa borist Landsbjörg klukkan rúmlega hálfátta í kvöld vegna konunnar á Seyðisfirði. Sérfræðingar Neyðarlínunnar gátu miðað út síma konunnar og staðsett hana nokkurn veginn, í hlíðum fjallsins Flanna, utarlega við fjörðinn sunnanverðan. Aðstæður til leitar voru afar erfiðar. Skyggni var afleitt vegna þoku, varla nema fimm metrar þegar verst lét að sögn Guðjóns, og auk þess á mikinn bratta að sækja, þverhníptir klettar víða og hættur við hvert fótmál.

Símasamband og þokulúðrar vísuðu veg

Björgunarsveitarmenn voru í slitróttu símasambandi við konuna og notuðu flautur og þokulúðra til að láta hana vita af sér. Í eitt skiptið sem samband náðist við göngukonuna hafði hún nýlega heyrt í þokulúðri og hjálpaði það leitarmönnum að rata til hennar. Að sögn Guðjóns var hún orðin nokkuð köld og hrakin í þokusuddanum, en í ágætu formi að öðru leyti. Gekk hún sjálf niður í fylgd leitarmanna og komst í hús á öðrum tímanum í nótt, sem fyrr segir.

Ökklabrotinn göngumaður við Arnarstapa og annar þreyttur á Fimmvörðuhálsi

Um tíu björgunarsveitarmenn á Snæfellsnesi aðstoðuðu í kvöld göngumann sem ökklabrotnaði nærri Arnarstapa. Var maðurinn sóttur á sexhjóli um torfæran og grýttan slóða þar sem yfir óbrúaða læki var að fara. Var hann kominn í sjúkrabíl um níuleytið.

Loks gengu tveir hópar björgunarsveitarmanna um Fimmvörðuháls í kvöld, eftir að ábending barst frá göngumanni um örmagna mann á þeirri leið. Björgunarsveitarmenn skimuðu eftir hinum göngumóða en fundu hvergi og annað fólk á þessari leið kannaðist ekki við að hafa séð hann. Þar sem veður var gott og margir á ferðinni var ákveðið, í samráði við lögreglu, að hætta frekari eftirgrennslan, hálfum þriðja tíma eftir að útkallið barst. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV