Goðsögur fyrr og nú

08.04.2017 - 09:45
Í vikunni var samtímis á öllum Norðurlöndunum og á barnabókmenntakaupstefnunni í Bologna tilkynnt um þær bækur sem tilnefndar eru til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Íslensku bækurnar sem eru tilnefndar eru Enginn sá hundinn eftir Hafstein Hafsteinsson, myndabók með ljóðskreytingum eftir Bjarka Karlsson og Úlfur og Edda. Dýrgripurinn, raunsæ ævintýrasaga um stjúpsystin sem ferðast inn í veröld íslenskrar goðafræði eftir Kristínu Rögun Gunnarsdóttur.

Barna - og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst afhent árið 2013. Fyrstur Íslendinga til að hljóta verðlaunin var menntaskólakennarinn, Arnar Már Arngrímsson, sem hlaut þau í fyrra fyrir skáldsöguna Sölvasaga unglings.

Í ár eru alls tólf bækur tilnefndar en hvert hinna sjálfstæðu Norðurlanda tilnefna tvær bækur. Grænland, Færeyjar, Samíska málsvæðið og Álandseyjar hafa rétt til að tilnefna eina bók. Að þessu sinni kusu Grænland og Álandseyjar að tilnefna ekki. Hér má lesa um tilnefningarnar árið 2017.

Kunngjört verður við hátíðlega athöfn í Helsinki þann 1. nóvember hvaða höfundur hlýtur verðlaunin í ár, en þau nema jafngildi 350.000 danskra króna.

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Orð um bækur
Þessi þáttur er í hlaðvarpi